Fréttir

Aukin sala sjávarafurða sem eru rekjanlegar með EPCIS staðli

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Verkefnið eTrace (eRek) er nú á öðru ári og eru niðurstöður þess þegar farnar að vekja töluverða athygli. Tilgangur verkefnisins er að skilgreina, þróa og innleiða rekjanleikakerfi sem byggist á EPCIS staðlinum og kanna hvort hann sé hentugur við rekjanleika matvæla.

Með því að samþætta upplýsingar um öryggi matvæla við aðrar rekjanleikaupplýsingar í rauntíma opnast möguleikar á að auka um leið öryggi afurða. 

Nú í vor fór fram tilraunakeyrsla í Svíþjóð á þeim hugbúnaði sem þróaður hefur verið í verkefninu, þar sem fiskiker voru merkt með RFID merkjum um leið og þeim var landað. RFID merki senda frá sér útvarpsbylgjur, sem lesa má með auðveldum hætti og voru merkin límd utan á ker, kassa og umbúðir. Þannig var hægt að fylgjast með ferð þorsks frá veiðum, í gegnum vinnslu og alla leið til neytenda með sjálfvirkum hætti. Notast var við handskanna til að fá upplýsingar um stað- og tímasetningar RFID merkja, í gegnum löndun og vinnslu í Simrishavn og til neytenda í Gautaborg.

etrace1

Upplýsingar gerðar sýnilegar fyrir neytendur.

Þær útfærslur sem þróaðar hafa verið í verkefninu lofa góðu og kunnu sænskir frændur vorir vel að meta frekari upplýsingar um fiskinn á myndrænu formi. Jókst salan umtalsvert á þeim afurðum þar sem upplýsingar um rekjanleika voru fyrir hendi og voru verslunareigendur afar ánægðir með að geta sýnt neytendum fram á leið vörunnar frá veiðum og inn í fiskborð. Þau RFID merki sem notuð voru í tilraunakeyrslunni sönnuðu gildi sitt, en hingað til hafa oft komið upp vandamál við notkun RFID merkja við þær blautu og köldu aðstæður sem eru í fiskvinnslum.

etrace2

Fiskikassar sem merktir hafa verið með RFID merkjum skannaðir við löndun.

Eins og fyrr segir er markmið verkefnisins að þróa og innleiða rekjanleikakerfi sem byggist á EPCIS staðlinum. Kerfið kemur í staðinn fyrir að upplýsingum sé safnað handvirkt og eykur þannig sjálfvirkni og minnkar möguleika á mistökum. Sænska fiskveiðieftirlitið (Fiskeriverket) sem er þátttakandi í verkefninu, sér mikla möguleika fyrir EPCIS staðalinn og RFID merki til að mæta nýlegri reglugerð Evrópusambandsins nr. 1224/2009, en þar segir að aðildarríki verði að sýna fram á fullkominn rekjanleika fiskafurða. Áhugi þeirra er einnig tilkominn vegna þess að þeir álíta að kerfið gæti nýst við fiskveiðistjórnun.

etrace3

Skjámynd af hugbúnaðinum sem sýnir vinnsluferil fisks, þar sem fiskur kemur bæði frá skipi og af markaði. Eftir vinnslu á þessum 6 kössum af fiski verða til 6 pakkningar af fiski sem staflað er á eitt vörubretti. Bakvið þessa mynd liggja svo frekari upplýsingar sem nýtast við rekjanleika afurða.

Til stendur að gera svipaða tilraunakeyrslu á Íslandi núna í haust þar sem þessi tækni verður notuð til að fylgja fiski allt frá veiðum, í gegnum vinnslu og alla leið til neytenda í Evrópu.

Fjölmörg fyrirtæki og stofnanir standa að verkefninu og hefur Matís umsjón með ákveðnum verkþáttum þess en Valur Gunnlaugsson og Sveinn Margeirsson hafa átt veg og vanda að vinnu Matís í verkefninu. Auk Matís eru meðal annars norsku fyrirtækin SINTEF og TraceTracker, Háskólinn í Lundi, tæknifyrirtækið Roi4u og sænska fiskveiðieftirlitið þáttakendur í verkefninu, sem styrkt er af SafeFoodEra áætluninni.