Fréttir

DNA örflögutækni notuð við tegundagreiningu á fiski

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Niðurstöður fjölþjóðlegrar rannsóknar á því hvort nota megi DNA örflögutækni við tegundagreiningu á fiski hafa nú verið birtar í tímaritinu Marine Biotechnology. Höfundar greinarinnar eru m.a. Dr. Sigríður Hjörleifsdóttir, Dr. Guðmundur Óli Hreggviðsson og Dr. Viggó Marteinsson, sem öll eru starfsmenn Matís.

Rannsóknahópar frá átta Evrópulöndum unnu að rannsókn sem var styrkt af ESB og lauk árið 2006. Fremur lítið er vitað um tegundabreytileika, breytingar á hlutföllum einstakra tegunda og starfsemi vistkerfa í sjó. Ástæðurnar eru fyrst og fremst þær að sýnataka og greining er oft vandkvæðum bundin. Erfitt er að tegundagreina margar sjávarlífverur á egg- og lirfustigi, dýra- og plöntusvif og smásæ botndýr. Smásjárgreining er afar tímafrek og krefst mikillar sérþekkingar. Tegundagreiningar sem byggja á DNA greiningum eru stöðugt að festa sig í sessi og henta vel til slíkra greininga, enda hefur komið í ljós að þær geta verið afar öflugar.

Sem fyrr segir var viðfangsefni rannsóknarinnar að athuga hvort þróa mætti DNA örflögutækni við að greina fiskitegundir. Tegundagreinandi gen (16S rRNA) úr hvatberum úr fiski af evrópskum hafsvæðum var notað. Ellefu mikilvægar fiskitegundir voru valdar í frumgerð örflögunnar. Stuttir þreifarar voru hannaðir út frá 16S rDNA röðum úr 230 einstaklingum af 27 fiskitegundum. Pörun 16S rDNA búta úr tegundunum ellefu við blöndu mótsvarandi þreifara á örflögu leiddi í ljós að þessi tækni hentar einkar vel og er nægilega sérvirk. Ennfremur var staðfest að 16S rRNA genið hentar vel til að hanna stutta þreifara sem nota má til að greina á milli fiskitegunda.

Þetta gefur góðar vonir um að í framtíðinn verði hægt að þróa fiskiflögu (“Fish Chip”) með þreifurum fyrir u.þ.b. 50 mikilvægar fiskitegundir, sem gæti flýtt fyrir og aukið áreiðanleika tegundagreininga á fiski og fiskafurðum. Slíka flögu mætti einnig nýta í rannsóknir á vistfræði hafsins, í fiskveiðistjórnun og til að rekja og tegundagreina fiskafurðir.

Lesa greinina