Fréttir

ÍSGEM í endurnýjun lífdaga

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Íslenski gagnagrunnurinn um efnainnihald matvæla (ÍSGEM) er gagnagrunnur sem geymir bæði upplýsingar um efnainnihald matvæla á íslenskum markaði og útflutt matvæli og hráefni. Gagnagrunnurinn er vistaður á vef Matís og nú stendur til að betrumbæta hann.

Ástæðan er sú að forrit gagnagrunnsins er orðið gamalt og tímabært að smíða nýtt forrit og endurskipuleggja framsetningu gagnanna í samræmi við alþjóðlega þróun. Þetta verður til mikilla bóta fyrir alla vinnu með gögnin og hagnýtingu þeirra. Birting gagnanna á vefsíðu Matís verður auðveldari en áður og sparar tíma. Notendur gagnanna munu njóta góðs af bættu aðgengi að þeim.

Fundur um ÍSGEM 7. mars 2008Dagana 6-7 mars fundaði Anders Møller frá Danish Food Information með starfsmönnum Matís til að leggja á ráðin um endurbætur á forriti ÍSGEM gagnagrunnsins. Anders hefur um árbil verið meðal fremstu sérfræðinga í Evrópu um þróun matvælagagnagrunna. Ívar Gunnarsson tölvufræðingur hjá Hugsjá tók þátt í fundunum en hann hefur unnið við ÍSGEM forritið.


Í ÍSGEM er hægt að leita eftir um það bil 900 fæðutegundum og finna upplýsingar um hverja og eina tegund. Þar er t.d. að finna upplýsingar um orkugildi hverrar fæðutegundar eða nánar tiltekið kílókalóríur, fitu í matvælum, prótein, kolvetni og viðbættan sykur. Ennfremur upplýsingar um bætiefni, eins og vítamín og steinefni. ÍSGEM er þ.a.l. hentugur fyrir þá sem vilja halda í við sig eða forðast ákveðin efni, svo sem salt- eða sykurmagn í matnum hjá sér.


Grunnurinn veitir almenningi jafnt sem atvinnulífi upplýsingar um samsetningu matvæla og er nauðsynlegt tæki fyrir matvælaiðnað og matvælaeftirlit, við næringarrannsóknir, kennslu, áætlanagerð stóreldhúsa og ráðgjöf um heilsusamlegt mataræði. Gögnin eru nýtt í forritum sem reikna út hve mikið fólk fær af hinum ýmsu næringarefnum. Matís býður upp á reikniforritið Matarvefinn á vefsíðu sinni.

Hjá Matís eru gerðar mælingar á efnainnihaldi matvæla fyrir ÍSGEM grunninn og gagna er einnig aflað frá innlendum og erlendum aðilum. ÍSGEM var forsenda fyrir þátttöku í evrópska öndvegisnetinu EuroFIR (European Food Information Resource) (network of excellence) um efnainnihald matvæla og leiðir til að miðla upplýsingunum með gagnagrunn-um og á netinu.

Á myndinni eru frá vinstri: Björn Þorgilsson, Matís, Ívar Gunnarsson tölvufræðingur, Anders Møller frá Danish Food Information, Ólafur Reykdal og Cecilia Garate, frá Matís.