Fréttir

Ensímmeðhöndlun á lifur fyrir niðursuðu lofar góðu

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Á Matís er nú í gangi forverkefni um ensímmeðhöndlun á lifur fyrir niðursuðu í samstarfi við niðursuðuverksmiðjuna Ice-W ehf í Grindavík. Markmið verkefnisins er að auka arðsemi við niðursuðu á lifur með því að lækka framleiðslukostnað og auka gæði afurða.

Því verður náð með því að þróa og prófa tækni sem fjarlægir himnu og hringorma á yfirborði lifrar með ensímum. Fyrstu niðurstöður lofa góðu.

Flestir sem starfað hafa við fiskvinnslu kannast við að fiskar bera sníkla og þeirra þekktastir eru hringormar, en það er safnheiti yfir þráðorma (Nematoda) í fiski. Þeir eru í fiski á Íslandsmiðum og eru til vandræða fyrir fiskvinnsluna, því það þarf að hreinsa þá úr flökum. Slíkur fiskur fellur í verði vegna galla, sem hljótast af hreinsun og flakanýting lækkar. Hringormar valda einnig tjóni á mörkuðum, sem eru misviðkvæmir fyrir hringormum. Fyrir nokkrum árum var áætlað að kostnaður við ormahreinsun á 200.000 tonnum af þorski væri 650 milljónir ísl. kr.

hringormar í þorsklifur

Sem fyrr segir lofa fyrstu niðurstöður verkefnisins, sem styrkt er af Tækniþróunarsjóði Rannís, góðu þar sem tekist hefur að fækka hringormum í lifur um 80%, og mýkja himnuna verulega. Tilgangurinn með því að fjarlægja eða mýkja himnuna sem umlykur lifrina er sá að með því fæst betri og jafnari skömmtun í dósir og nýtingin eykst, auk þeirrar hagræðingar í vinnsluferlinu sem af því hlýst.

Vonir standa til að þessi aðferð verði til þess að auka afköstin verulega í þessari vinnslu. Sótt hefur verið um áframhaldandi styrk til að vinna frekar að þessu máli.