Fréttir

Er notkun sveppapróteins eitt skref í átt að sjálfbærari og heilsusamlegri matarvenjum?

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Með síaukinni fólksfjölgun og vitundarvakningu um umhverfisáhrif matvælaframleiðslu í heiminum hefur þörfin fyrir þróun nýrra innihaldsefna einnig aukist. Samhliða þessu heldur matvælaiðnaðurinn áfram að leitast við að mæta kröfum neytenda um gæði og næringargildi matvæla. Út frá þessu hefur verið skoðað hvort nýta megi líftækni til að þróa próteinríkt innihaldsefni í mat og mæta þar með eftirspurninni sem er eftir aukinni sjálfbærni og heilnæmi í matvælum.

Í verkefninu FUNGITIME sem styrkt er af Evrópusambandinu í gegnum EIT food og Matís leiðir fer fram þróun ýmissa matvæla sem innihalda ABUNDA® sveppaprótein. Í ABUNDA® próteininu má finna blöndu næringarefna, trefja, vítamína og steinefna og matvælin sem eru í þróun eru fjölbreytt. Sem dæmi má nefna snakk, pasta og ýmsa drykki á borð við mjólkurstaðgengla. Markmið verkefnisins er að þróa matvæli sem hafa afburða næringar- og líffræðilega eiginleika samhliða því að mæta sem flestum kröfum neytenda.

Hjá Matís hefur á undanförnum mánuðum farið fram þróunarvinna á uppskriftum að fersku tagliatelle pasta sem inniheldur ABUNDA® sveppaprótein. Annars vegar er um að ræða hefðbundna pasta uppskrift þar sem ákveðnu hlutfalli af hveiti er skipt út fyrir ABUNDA®. Hins vegar hefur verið þróuð pastauppskrift sem hentar þeim sem kjósa grænkerafæði.

Það er ýmsum vandkvæðum bundið að þróa pasta með þessum hætti en sumir eiginleikar pastadeigsins, svo sem viðloðun og teygjanleiki breytast töluvert þegar átt er við það. Neytendakannanir sem gerðar voru í tengslum við verkefnið hafa einnig sýnt fram á að neytendur óska eftir fleiri vörum án allra aukefna sem gjarnan eru notuð þegar framleiddar eru staðgönguvörur sem eiga að líkja eftir einhverskonar upprunalegum vörum. Því hefur verið haft að leiðarljósi að nota engin viðbætt efni í þessari þróun á pasta til að mæta þessum kröfum.

Gert er ráð fyrir að notkun ABUNDA® sveppapróteins muni þó hafa í för með sér ýmsa kosti. Próteinið er af miklum gæðum en framleiðslukostnaðurinn er þrátt fyrir það lágur og framleiðslan að miklu leyti sjálfbær. Próteinið er auk þess heilsusamlegt, trefjaríkt og hentar grænmetisætum og grænkerum.

Frekara lesefni um ABUNDA® sveppaprótein og tæknina á bakvið það má nálgast hér

IS