Fréttir

Erfðagreiningar á strokulöxum í fullum gangi

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Mikið hefur verið að gera á rannsóknastofu Matís í erfðafræði undanfarna daga við greiningar á meintum eldislöxum sem veiðst hafa í fjölda áa undanfarnar vikur.

Matís hefur að undanförnu fengið send sýni úr löxum frá Hafrannsóknastofnun til erfðafræðirannsókna. Á rannsóknarstofu Matís er erfðaefni einangrað og svokölluð tafsraðagreining framkvæmd. Sérfræðingar Hafrannsóknastofnunnar nýta niðurstöður síðan til að kanna hvort laxinn sé villtur eða af eldisuppruna. Ef hann reynist upprunninn úr eldi, eru erfðagögnin notuð til að rekja uppruna fisksins. Mikilvægt er að viðhalda þekkingu, tækjabúnaði og færni til að hægt sé að framkvæma þessar greiningar hér á landi. Það tryggir stuttar boðleiðir auk þess að stuðla að öruggari og skjótari greiningu sýna. Að lokum má nefna að Matís og Hafrannsóknastofnun vinna sameiginlega að þróun erfðamarkasetts til að meta erfðablöndun frá eldislaxi í íslenskum stofnum.

Matís hefur í gegnum tíðina unnið mörg rannsóknarverkefni á erfðafræði íslenskra laxa. Rannsóknir hafa m.a. sýnt að stofnar í íslenskum ám eru fjölbreytilegir og mikill erfðafræðilegur munur er á milli og innan vatnasviða.

Sjá einnig:

Strokulaxar í ám – árvekni veiðimanna mikilvæg