Fréttir

Ert þú að borða nóg af ómega-3 fitusýrum?

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Þrátt fyrir að heilsusamleg áhrif þess að neyta fjölómettra fitusýra séu margsönnuð er þeirra ekki alltaf neytt í nægu magni vegna þess að neysla á feitum fiski er frekar lítil á Íslandi. Matís og fyrirtækið Grímur kokkur (www.grimurkokkur.is) hafa á undanförnum árum unnið saman að verkefnum um auðgun sjávarrétta úr mögrum fiski með ómega olíum.

Í norrænu verkefni, sem styrkt var af Nordic Innovation, þróaði Grímur kokkur tilbúna sjávarrétti sem auðgaðir voru ómega olíum til að auka magn ómega 3 fitusýra og um leið hollustugildi réttanna. Olían kom frá fyrirtækinu BioActive Foods í Noregi en hún er unnin að hluta til úr íslenskri fiskiolíu. Í samstarfi við Alfons Ramel á Rannsóknastofu i næringarfræði, Háskóla Íslands og Landspítala var gerð íhlutandi rannsókn til að kanna lífaðgengi (bioavailability) n-3 fitusýra sem bætt var í tilbúna rétt og bera saman við ómegaduft sem neytt var beint. Í rannsókninni tóku þátt 77 manns yfir 50 ára að aldri en auglýst var eftir þátttakendum. Einn hluti þátttakenda neytti hefðbundinna fiskrétta frá Grími kokki, annar hópurinn neytti fiskrétta sem auðgaðir voru með ómega olíu og þriðji hópurinn neyttir ómegadufts. Rannsóknin stóð í fjórar vikur og voru tekin sýni af blóði fyrir og eftir. Þeir þátttakendur sem fengu ómega olíu eða ómega duft fengu u.þ.b. ráðlagðan dagsskammt af DHA og EPA fitusýrum.  Magn EPA í blóði tvöfaldaðist hjá þeim sem neyttu ómega og DHA jókst líka marktækt. Engin breyting mældist í blóði þeirra sem ekki fengu ómega.

Þessar rannsóknaniðurstöður hafa nú birst í  vísindagrein í tímaritinu European Journal of Clinical Nutrition (2014) og heitir greinin: Bioavailability of long-chain n-3 fatty acids from enriched meals and from microencapsulated powder. Höfundar eru Harpa Hrund Hinriksdóttir, Valgerður Lilja Jónsdóttir, Kolbrún Sveinsdóttir, Emilía Martinsdóttir og Alfons Ramel. Matís, Grímur kokkur og BioActive Foods munu halda áfram rannsóknum á þessu sviði í EU verkefninu EnRichMar.

Nánari upplýsingar veitir Emilía Martinsdóttir hjá Matís.