Fréttir

Vor í lofti

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Á undanförnum árum hefur áhugi almennings á að framleiða vörur úr eigin hráefni með það að markmiði að búa til vörur sem selja má til neytenda, aukist mikið. Í kjölfarið hafa margir farið í að koma sér upp aðstöðu til slíkrar framleiðslu.

Margir bændur hafa komið sér upp vinnsluaðstöðu á bæjunum og selja hangikjöt, pylsur og ýmiskonar önnur matvæli beint frá framleiðanda við miklar vinsældir neytenda. Sama má segja um fiskframleiðendur, margir framleiða harðfisk eða önnur matvæli úr sjávarfangi. Að koma upp slíkri vinnuaðstöðu og fá tilskilin leyfi kostar þó töluverða fjármuni og vinnu áður en hægt er að fara að framleiða matvælin.

Margir framleiðendur hafa leitað til Matís eftir aðstoð að koma upp aðstöðu sem uppfyllir kröfur til matvælaframleiðslu og við vöruþróun á þeim matvælum sem ætlunin er að framleiða. Verkefnið Vor í lofti var sett á fót á sunnanverðum Vestfjörðum á síðasta ári og er því að ljúka núna. Verkefninu var ætlað að styrkja smáframleiðendur á svæðinu til að koma upp fullvinnslu matvæla í smáum stíl og tóku alls átta aðilar þátt í verkefninu að einhverju eða öllu leyti. Verkefnið skilaði þátttakendum vel áleiðis að markmiðum þeirra og má ætla að með vaxandi ferðamannastraumi til svæðisins muni markaður fyrir slíka vöru aukast enn frekar.Verkefnið var styrkt af Rannsóknar- og Nýsköpunarsjóði Vestur-Barðastrandarsýslu og Vöruþróunarsetri sjávarútvegsins. Skýrsla um verkefnið hefur verið gefin út og má sjá hana hér. Nánari upplýsingar um verkefnið gefur Lilja Magnúsdóttir hjá Matís á Patreksfirði.