Fréttir

Fjaðrir í fiskafóður

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Nú er samstarfsverkefni Matís og Reykjagarðs lokið þar sem unnið var að samþættingu innan lífhagkerfisins þar sem mikil áhersla er lögð á þekkingaryfirfærslu milli geira. Verkefnið miðaði að aukinni verðmætasköpun með nýtingu á ónýttri aukaafurð sem hingað til hefur verið fargað þ.e. nýtingu kjúklingafjaðra í próteinríkt mjöl sem hægt væri að nýta í fóður hjá fiskeldisfyrirtækjum. Áður hefur verið greint frá verkefninu á vef Matís

Þegar nýta á fjaðrir í mjöl er mikilvægt að rjúfa próteinin sem fjaðrirnar innihalda til að gera þau meltanleg. Sú aðferð sem hefur rutt sér hvað mest til rúms og var reynd í þessu verkefni er vatnsrof með suðu undir þrýstingi, þurrkun og mölun. Fjaðurmjöl er hægt að nýta í fóður fyrir svín, loðdýr, gæludýr og fiska. Kosturinn við að nýta fjaðurmjöl í fóður fyrir fiskeldi er að rannsóknir hafa sýnt að hægt er að skipta allt að 30% af fiskimjöli út fyrir fjaðurmjöl án þess að það hafi áhrif á vöxt eldisfisks. Ekki þarf að greiða fyrir innflutning hráefnis og ekki þarf að veiða eða rækta frumhráefnið, því það er vannýtt hliðarafurð í vinnslu á kjúklingi.

Fjaðurmjöl hefur um 80% próteininnihald og amínósýrusamsetningin er lík amínósýrusamsetningu fiskimjöls en þó þarf að bæta mjölið lítillega með tilliti til ákveðinna amínósýra. Nýting á kjúklingafjöðrum í eldisfóður jákvæð umhverfisleg áhrif þar sem hráefnið hefur hingað til verið urðað með tilheyrandi sótspori og kostnaði en með nýtingu á fjöðrum í próteinríkt mjöl eru allar hliðarafurðir í kjúklingaframleiðslu nýttar, þannig má stuðla að því að ná markmiðum um minni urðun. Fóður sem unnið er úr fjaðurmjöli getur nýst til svína- og loðdýraræktunar og jafnframt má gefa gæludýrum slíkt fóður. Niðurstöður verkefnisins eru aðgengilegar í skýrslu Matís um verkefnið.

Framleiðnisjóður landbúnaðarins og AVS Rannsóknasjóður í sjávarútvegi styrktu vinnuna sem unnin var í verkefninu.

IS