Fréttir

Fréttatilkynning frá stjórn Matís ohf.

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Þann 1. desember urðu breytingar á yfirstjórn Matís.

Doktor Sjöfn Sigurgísladóttir, sem verið hefur forstjóri Matís frá því að félagið tók til starfa 1. janúar 2007 og forstjóri Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins þar á undan, lætur nú af störfum að eigin ósk.

Doktor Sveinn Margeirsson tekur við af henni sem forstjóri. Samhliða breytingunum mun dr. Hörður G. Kristinsson taka við nýrri stöðu rannsóknastjóra Matís, ásamt því að starfa áfram sem sviðsstjóri Líftækni og lífefnasviðs hjá félaginu.

Sveinn og Hörður, sem hafa báðir gegnt lykilstörfum hjá Matís, þekkja vel til allrar starfsemi  félagsins. Auk þess hafa þeir í sameiningu stýrt fyrirtækinu undanfarna  fjóra  mánuði með  góðum árangri.

Stjórn Matís  þakkar Sjöfn fyrir frábært  starf sem hún hefur unnið í þágu félagsins og fyrir hraða og örugga uppbyggingu þess undanfarin fjögur ár og óskar henni velfarnaðar á nýjum starfsvettvangi. 

Um leið býður stjórnin Svein og Hörð velkomna til starfa í nýjum hlutverkum og óskar þess að áframhald verði á því góða starfi sem þeir hafa unnið í þágu Matís ohf.

Matís hefur að markmiði að auka samkeppnishæfni íslenskrar matvælaframleiðslu á alþjóðlegum vettvangi. Meðal hlutverka félagsins eru efling nýsköpunar og aukin verðmæti og öryggi matvæla með öflugu þróunar og rannsóknastarfi.  Á þeim vettvangi eru spennandi tímar framundan hér á landi við frekari uppbyggingu sjávarútvegs, landbúnaðar, líftækni og annarrar matvælaframleiðslu.

F.h. stjórnar Matís  ohf.,
Friðrik Friðriksson, form.
896-7350

Fréttatilkynninguna á .pdf formi má finna hér. Nýtt skipurit Matís er hér.

IS