Fréttir

Matís og Fisktækniskóla Suðurnesja undirrita samstarfssamning

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Fyrir stuttu undirrituðu Matís og Fisktækniskóli Suðurnesja samstarfssamning sem m.a. stuðlar að eflingu fagþekkingar, leikni og hæfni nemenda í námi í veiðum, vinnslu og fiskeldi.

Matís er stærsta rannsóknafyrirtæki landsins á sviði matvælarannsókna og matvælaöryggis.

Stefna Matís er að efla samkeppnishæfni íslenskra afurða og atvinnulífs, bæta lýðheilsu, tryggja matvælaöryggi og sjálfbæra nýtingu umhverfisins með rannsóknum, nýsköpun og þjónustu á sviði matvæla og líftækni.

Hjá Matís starfa margir af helstu sérfræðingum landsins í matvælatækni og líftækni; matvælafræðingar, efnafræðingar, líffræðingar, verkfræðingar og sjávarútvegsfræðingar. Einnig starfar fjöldi M.Sc. og Ph.D. nemenda við rannsóknartengt nám hjá Matís.

Fisktækniskóli Suðurnesja (FTS) er samstarfsvettvangur aðila á Suðurnesjum sem vinna að uppbyggingu þekkingar á framhaldsskólastigi á sviði fiskveiðaveiða, vinnslu sjávarafla og fiskeldis.

Fisktækniskólinn er einnig samstarfsvettvangur um undirbúning og framkvæmd endurmenntunar starfandi fólks í fiskeldi, veiðum og vinnslu sjávarafla.   Fisktækniskólinn stendur að og hvetur til rannsókna og þróunarstarfs á sviði menntunar í fiskveiðaveiðum, vinnslu sjávarafla og fiskeldis.

Fisktækniskóli Suðurnesja er leiðandi í samstarfsneti skóla, fyrirtækja og símenntunarmiðstöðva á níu stöðum víðsvegar um land undir heitinu Fisktækniskóli Íslands (FTÍ).

Hörður og Ólafur skrifa undir
Hörður G. Kristinsson, starfandi forstjóri Matís og Ólafur Jón Arnbjörnsson,
framkvæmdastjóri Fisktækniskólans, skrifa undir samninginn.

Með samstarfi sínu hyggjast samningsaðilar:

  • Efla fagþekkingu, leikni og hæfni nemenda sem leggja stund á skóla- og vinnustaðanám í veiðum, vinnslu og fiskeldi.
  • Efla fagþekkingu, leikni og hæfni kennara og tilsjónarmanna nemenda í veiðum, vinnslu og fiskeldi.
  • Efla áhuga ungs fólks á greinunum og stuðla þannig að nýliðun starfsmanna og aukinni virðingu fyrir störfum, fyrirtækjum og stofnunum.
  • Auka skilning forsvarsmanna fyrirtækja í greinunum á nauðsyn og arðsemi menntunar almennra starfsmanna.
  • Þróa kennsluhætti og starfsþjálfun á framhaldsskólastigi og í framhaldsfræðslu, bæði í skóla og í fyrirtækjum.
  • Veita stjórnvöldum ráð um uppbyggingu og skipulag náms á framhaldsskólastigi og í framhaldsfræðslu.
  • Sækja um styrki til innlendra og erlendra sjóða til að efla námsefnisgerð og þróun námsefnis

Nánari upplýsingar veita Margeir Gissurarson hjá Matís, margeir.gissurarson@matis.is, og Ólafur Jón Arnbjörnsson framkvæmdastjóri Fisktækniskólans, olijon@fss.is.

Samstarfsaðilar
Aftari röð frá vinstri: Gylfi Einarsson verkefnistjóri FTÍ, Margeir Gissurarson, Matís,
Franklin Georgsson, Matís, Lárus Þór Pálmason, FTS, Nanna Bára Maríasdóttir
verkefnastjóri FSS, Guðjónína Sæmundsóttir, forstöðumaður MSS og varamður
í stjórn FSS.
Fremri röð frá vinstri: Hörður G. Kristinsson, starfandi forstjóri Matís og Ólafur Jón
Arnbjörnsson, framkvæmdastjóri FSS