Fréttir

Fundur á Matís í Mmmmmseafood – verkefninu

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

MmmmmSeafood er heiti á verkefni sem Norræna nýsköpunarmiðstöðin (Nordisk InnovationsCenter) styrkir. Líklega má þýða heiti verkefnisins sem “Nammifiskur” á íslensku, en tilgangur þess er einmitt að auka áhuga ungs fólks á fiski og sjávarafurðum.

Þrátt fyrir að sífellt fleiri rannsóknir sýni fram á góð áhrif fiskneyslu á heilsu fer fiskneysla minnkandi meðal ungs fólks. Matís hefur á undanförnum árum unnið að rannsóknum á fiskneyslu ungs fólks.

Það eru reyndar ekki bara Íslendingar sem hafa áhyggjur af þessari óheillaþróun og árið 2007 var komið á samstarfsverkefni Íslendinga, Norðmanna og Dana sem ætlað er að styrkja norrænan sjávarútveg með því að þróa nýjar neytendavænar vöruhugmyndir fyrir ungt fólk og ungar fjölskyldur til að auka neyslu hágæðasjávarfangs, bæði heima og heiman (t.d. í skólamötuneytum).

Til þess að ná þessu markmiði verður stofnað net (Nordic Seafood Network -NSN), sem í eru 31 þátttakendur frá Noregi, Danmörku og Íslandi. Samstarfsnetið samanstendur af níu fiskframleiðendum, fimm smásölum og veitingahúsum,  fjórum markaðsfyritækjum, fimm frá stjórnvöldum og borgum, tveimur aðilum frá mötuneytiskeðjum, einum matarhönnuði og fimm matvælarannsóknastofnunum.

Nú stendur yfir á Matís tveggja daga fundur í verkefninu , en auk fyrirtækisins eru íslenskir þátttakendur Lýðheilsustöð, Fylgifiskar og Menntasvið Reykjavíkurborgar.

Á myndinni má sjá þátttakendur á fundinum, sem fram fer á Skúlagötu 4.