Fréttir

Kælibót – Samanburður ísmiðla – kælihraði og kæligeta

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Eitt af þeim verkefnum sem unnið er að á Vinnslu- og vöruþróunarsviði Matís kallast Kælibót. Markmið þess er að stuðla að innleiðingu bestu þekkingar og verklags fyrir kælingu og ferlastýringar fyrir fiskafurðir til að tryggja gæðaeiginleika, rekjanleika og öryggi hráefnis og afurða, og stuðla að hagnýtingu þessara upplýsinga fyrir íslenska framleiðendur á mörkuðum sínum.

Vitað er að hröð og örugg kæling sjávarafla viðheldur betur gæðum, lengir geymsluþol og eykur þar með verðmæti sjávarafurða. Á síðastliðnum áratugum hefur aukin athygli beinst að fljótandi og dælanlegum ísmiðlum, sem í daglegu tali eru oftast kallaðir krapa- eða vökvaís. Um er að ræða blöndu vökva (vatns, saltvatns eða sjávar) og ískristalla af kornastærð u.þ.b. 0,005 – 1 mm. Vegna saltinnihaldsins er frostmark krapa- og vökvaíss lægra en 0 °C, sem stuðlar að hraðari kælingu en með hefðbundnum flöguís eins og oft hefur verið sýnt fram á með tilraunum.

Í verkefninu voru gerðar samanburðartilraunir á kælihraða og kæligetu (hversu vel kælimiðillinn viðheldur kælingu) mismunandi tegunda dælanlegra ísmiðla og flöguíss. Þeir mismunandi kælimiðlar, sem voru notaðir í tilraununum, voru eftirtaldir: ómulinn flöguís, mulinn flöguís, vökvaís frá Optimar (“Optim-Ice”), krapaís frá Skaganum (“Flow-Ice”), vökvaís frá Crytec (“Bubble Slurry Ice”) og saltvatn.  Fylgst var nákvæmlega með umhverfishitastigi og því stýrt í tilraununum til að lágmarka möguleg áhrif þess.  Bæði var fylgst með þróun hitastigs í ufsa í kælingu og geymslu auk þess sem sívalningur úr agar næringaræti var kældur í mismunandi ísmiðlum. 

Megin niðurstöður tilraunanna er að hitastig kælimiðilsins skiptir mestu máli fyrir kælihraða. Mikilvægi jafnrar dreifingar kælimiðilsins kom berlega í ljós en kornastærð vökva/krapaíss er ekki jafn mikilvægur eiginleiki.  Miðað við hitastigsmælingar, sem voru gerðar í verkefninu, þá virðist flöguís vera hentugri en fljótandi ís til geymslu á fiski að því gefnu að geymslan sé lengri en u.þ.b. 3 dagar. 

Línurit sem sýnir mismunandi kælihraða (pdf-skjal)

Verkefnið var styrkt af Tækniþróunarsjóði Rannís og AVS.