Fréttir

Grænir Frumkvöðlar Framtíðar komnir í gírinn víða um land

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Undanfarnar vikur hefur starfsfólk Matís verið í óða önn að koma fræðsluverkefninu Grænir Frumkvöðlar Framtíðar af stað í þeim þremur grunnskólum sem taka þátt í verkefninu í vetur. Farið var í heimsóknir í Árskóla á Sauðárkróki, Nesskóla í Neskaupsstað og Grunnskóla Bolungarvíkur, þar sem starfmenn Matís spjölluðu við nemendur 8.-10. bekkjar og kennara þeirra um loftslagsbreytingar, umhverfismál og verkefnið sjálft.

Fræðsluverkefnið Grænir Frumkvöðlar, sem styrkt er af Loftslagssjóði, hefur það að meginmarkmiði að fræða íslenska grunnskólanemendur um loftslags- og umhverfismál, áhrif loftslagbreytinga á hafið og lífríki þess og ekki síst, möguleg áhrif á sjávarútveg og samfélagið. Verkefnið mun einnig miða að því að valdefla grunnskólanemendur með því að fræða þá um mikilvægi nýsköpunar og frumkvöðlastarfsemi, ekki aðeins sem tól í baráttunni gegn loftslagsvandanum, heldur einnig fyrir þau sjálf og þeirra nærsamfélag. Ein helsta afurð verkefnisins verður kennsluefni fyrir íslenska kennara og nemendur þeirra, sem inniheldur m.a. um 40 mismunandi verkefni, leiki og tilraunir, svo eitthvað sé nefnt. Stútfullur pakki af fróðleik og ekki síst, skemmtun.

Undanfarnar vikur hafa starfsmenn Matís, þær Ragnhildur Friðriksdóttir og Katrín Hulda Gunnarsdóttir, heimsótt grunnskólana þrjá sem taka þátt í verkefninu í vetur. Kennsluefnið verður prufukeyrt í þessum þremur skólum og verður sú reynsla nýtt til að þróa og endurbæta efnið og aðferðirnar. Í þessum heimsóknum var mikið spjallað við krakkana um loftslagsbreytingar, farið yfir hvað loftslagsbreytingar raunverulega eru og hvað þær þýða fyrir okkur, samfélagið okkar, jörðina og lífríkið.

Oft sköpuðust líflegar umræður og flott stemning, enda krakkarnir áhugasamir og fullir af eldmóði varðandi framtíð þeirra og náttúrunnar. Brugðið var á leik með loftslagstengdu ívafi í öllum skólunum þremur og á myndinni til hægri má sjá þegar nemendur prófuðu Lundaleikinn, sem er einn af 40 leikjum og verkefnum Grænna Frumkvöðla Framtíðar. Loks var verkefnið kynnt fyrir nemendum, þar sem farið var yfir hlutverk þeirra og bekkjarins.

Næstu vikur mun kennsla á vinnustofum fara fram í skólunum þremur og hvetjum við alla sem hafa áhuga að fylgjast með á heimasíðu verkefnisins, www.graenirfrumkvödlar.com og instagramsíðunni gff_matis. Þar verða settar inn myndir, myndbönd og annað sem tengist verkefninu. Að verkefninu loknu, eða um mitt næsta ár, verður kennsluefnið loks gert aðgengilegt til niðurhals á heimasíðu verkefnisins.

Teymið á bakvið Græna Frumkvöðla Framtíðar