Fréttir

Íslenskt grænmeti gegni mikilvægu hlutverki fyrir ímynd landsins og sjálfbærni

Á dögunum birtist grein í Bændablaðinu þar sem einu af grænmetisverkefnum Matís; Bætt gæði, geymsluþol og minni sóun í virðiskeðju íslensks grænmetis, voru gerð skil auk þess sem rætt var við verkefnastjórann Ólaf Reykdal.  

Verkefnið um virðiskeðju íslensks grænmetis hlaut styrk úr Matvælasjóði og hófst á þessu ári en lýkur á því næsta.  Meginviðfangsefnin eru geymsluþolsrannsóknir, rannsóknir á leiðum til að gera verðmæti úr vannýttum hliðarafurðum garðyrkju og greiningar sem miða að því að draga úr sóun í allri viðriskeðju grænmetis. Unnið hefur verið að hinum ýmsu hlutum verkefnisins á síðustu misserum og starfsfólk Matís vonast til að geta skilað áhugaverðum niðurstöðum til grænmetisgeirans á næstu mánuðum, sagði Ólafur við blaðamann.

Verkefninu er ætlað að efla grænmetisgeirann á Íslandi með nýrri þekkingu sem styður við uppbyggingu geirans og er þá átt við aukna framleiðslu, fleiri atvinnutækifæri og aukið framboð næringarríkra afurða. Verkefnið er unnið í samstarfi við Háskóla Íslands og verslunarkeðjuna Samkaup en Samband garðyrkjubænda, Sölufélag garðyrkjumanna og Ráðgjafamiðstöð landbúnaðarins hafa einnig verið höfð með í ráðum.

Frétt Bændablaðsins má lesa í heild sinni hér: Aukið verðmæti íslenskrar grænmetisframleiðslu

Fylgjast má með framgangi verkefnisins á verkefnasíðu þess hér: Bætt gæði, geymsluþol og minni sóun í virðiskeðju íslensks grænmetis.

Matís hefur í gegnum tíðina stundað ýmsar rannsóknir á grænmeti og áhugaverðar umræður fóru fram um tengd málefni á áherslufundi sem haldinn var í vor um virðiskeðju grænmetis. Upptöku af fundinum má nálgast hér: Virðiskeðja grænmetis

is_ISIcelandic