Fréttir

Grænir frumkvöðlar framtíðar

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Tengiliður

Katrín Hulda Gunnarsdóttir

Verkefnastjóri

katrinh@matis.is

Grænir frumkvöðlar framtíðar (GFF) er fræðsluverkefni hjá Matís sem hóf göngu sína í júní 2021. Hlutverk verkefnisins er að fræða íslenska grunnskólanemendur um loftslags- og umhverfismál, og er verkefnið styrkt af Loftslagssjóði. Katrín Hulda Gunnarsdóttir, sérfræðingur hjá Matís hefur unnið að verkefninu ásamt Justine Vanhalst verkefnastjóra hjá Matís. Katrín deilir hér með okkur ferðalagi verkefnisins frá upphafi.

„Það var ánægjulegt að sjá hve áhugasamir og í raun vel að sér krakkarnir voru um áhrif loftslagsbreytinga. Það varð fljótlega ljóst að þetta er málefni sem brennur á þeim og þau eru mjög meðvituð um þá umræðu sem er að eiga sér stað í þjóðfélaginu um þessar mundir.“

Afhverju Grænir frumkvöðlar framtíðar?

„Ég var nýbúin að klára kennaranám þar sem ég hafði lært ýmis hugtök eins og lausnaleitarnám, nemendamiðað nám og leikjavæðing. Þegar ég sá auglýst starf við að vinna í GFF þá fannst mér það henta fullkomlega. Það bæði passaði vel að þeirri hugmyndafræði sem ég vildi tileinka mér sem kennari, tók á málefnum sem mér þykja mikilvæg og myndi gefa mér reynslu í að búa til námsefni. Ég sótti því um og hef verið hér síðan.” segir Katrín Hulda.

Ekki þarf að leita langt yfir skammt til að hafa áhrif

„Markmið GFF er að vekja áhuga og efla þekkingu grunnskólabarna á loftslags- og umhverfismálum, nýsköpun og sjálfbærri auðlindanýtingu í þeim tilgangi að virkja þau til baráttunnar gegn loftslagsvánni og hvetja þau til grænnar nýsköpunar.”

„Þetta var gert með því að veita nýstárlega og áhugaverða fræðslu og virkja þau í hugmyndavinnu og nýsköpun í samvinnu við fyrirtæki í heimabyggð með sérstaka áherslu á umhverfisáhrif og auðlindanotkun. Með því var ætlunin að efla tengsl milli aðila innan heimabyggðar nemenda og sýna þeim að oft þarf ekki að leita langt yfir skammt til að geta haft áhrif.“ 

„Með nýstárlegri fræðslu var aðallega verið að hugsa um að gera þetta spennandi, áhrifamikið og valdeflandi fyrir krakkana. Það hefur svo þau áhrif að minnka loftslagskvíða. Til þess að berjast gegn loftslagskvíða meðal barna og ungmenna hefur m.a. verið mælt með því að segja þeim satt, gefa erfiðum tilfinningum rými og leyfa þeim að taka þátt í baráttunni. Höfundar námsefnis GFF höfðu þetta í huga við sín skrif. “ útskýrir Katrín Hulda.

Áskoranir í kjölfar Covid 19 voru leystar með útsjónarsemi

„Markmiðunum var náð og gekk verkefnið betur en við þorðum að vona. Auðvitað breyttist skipulagið aðeins vegna Covid-19 faraldursins, en skólarnir voru ótrúlega útsjónarsamir í að redda málunum. Sem dæmi um það má nefna að á Sauðárkróki var ekki hægt að heimsækja fyrirtækin vegna heimsóknabanns, vegna Covid fjöldatakmarkana. Þess í stað fengu nemendur heimsóknir frá fyrirtækjunum, þar sem sagt var frá starfsemi þeirra. Það voru kynningar, myndbönd og ýmislegt fleira og þótti takast mjög vel til.”

Nesskóli
Árskóli

„Endurgjöf frá kennurum og öðrum þátttakendum kom mjög vel út, og var mjög dýrmæt við að betrumbæta verkefnið fyrir næstu umferð. Það má líka nefna að mikill skortur er á námsefni um loftslags- og umhverfismál fyrir þennan aldurshóp og því ákveðið skarð sem verkefnið fyllir upp í.” segir Katrín Hulda.

Kom eitthvað nýtt eða jafnvel óvænt í ljós?

„Það var skemmtilegt að sjá hversu hæfir krakkarnir eru í nýsköpun. Ekki nóg með að þeir koma með stórsnjallar hugmyndir heldur sýndu þeir vönduð vinnubrögð og afrekuðu margt á afar stuttum tíma þegar MAKEathonin áttu sér stað. MAKEathon er nýsköpunarkeppni þar sem keppst er um að útbúa bestu lausnina á tilteknu vandamáli. Í okkar tilfelli fóru keppnirnar fram yfir tvo daga og gerðu krakkarnir frumgerðir, líkön eða veggspjöld af lausnum sínum á umhverfisvandamálum.

Það var ánægjulegt að sjá hve áhugasamir og í raun vel að sér krakkarnir voru um áhrif loftslagsbreytinga. Það varð fljótlega ljóst að þetta er málefni sem brennur á þeim og þau eru mjög meðvituð um þá umræðu sem er að eiga sér stað í þjóðfélaginu um þessar mundir. Þar að auki ríkti mikill baráttuvilji meðal þeirra en þeim finnst þetta vera stærsta vandamálið sem heimsbyggðin stendur frammi fyrir.” segir Katrín Hulda.

„Hægt var að staðfæra verkefnin eftir þörfum hvers og eins skóla. Kennararnir tóku verkefnin og gerðu þau að sínum eigin, til dæmis tengdu kennarar í Grunnskóla Bolungarvíkur námsefnið við sögu Bolungarvíkur og kennarar á Sauðárkróki nýttu tækifærið og notuðu eina tilraunina til að kenna nemendum sínum skýrslugerð.”

„Það var líka flott að sjá hve valdeflandi MAKEathonið var fyrir nemendur. Það að fá tækifæri til að glíma við „alvöru vandamál“, þ.e. sömu vandamál og fullorðna fólkið í þeirra nærumhverfi glímir við, virtist gefa þeim nýjar forsendur og metnað. Það skipti þau miklu máli að þetta væri ekki bara eitthvað skólabókadæmi sem væri svo stungið ofan í skúffu og aldrei gert neitt meira með.”

Fyrsta ár verkefnisins lauk með glæsibrag og áhrifin leyna sér ekki

„Fyrsta ári verkefnisins, af vonandi mörgum, lauk í vor með glæsibrag. Landskeppni MAKEathons, nýsköpunarkeppni GFF var haldin og úrslitin kynnt í Nýsköpunarvikunni. Allir þátttakendur voru hæstánægðir og virtist mikill vilji fyrir því að halda verkefninu áfram.

Áhrifin hafa fyrst og fremst verið á nemendurna. Þeir hafa lært mikið, bæði fræðilega, þ.e. um loftslagsbreytingar og áhrif þeirra, en líka praktískt, þ.e. vinnubrögð. Aukinn skilningur á eðli loftslagsbreytingar og áhrifum þeirra m.a. á þeirra nærumhverfi hefur náðst. Sjónarhorn krakkanna á heimabæ sinn breyttist fyrir vikið, sem og á þau fyrirtæki sem starfa þar. Þau lærðu að sjá tækifæri í sínu nærumhverfi. Þar komu FabLab smiðjurnar og Djúpið Frumkvöðlasetur sterk inn, en þeirra sérþekking er m.a. að kenna krökkum nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi.

Kennararnir hafa einnig fengið ný vopn í kennslufræði vopnabúrið sitt, bæði hvað varðar fræðilega þekkingu en líka nýjar kennsluaðferðir. Vonandi munu þessar aðferðir nýtast þeim áfram, hvort sem þeir kenni umhverfisfræði eða einhverjar aðrar greinar. Svo má ekki gleyma þeim áhrifum sem verkefnið hefur haft á okkur sjálfar. Við erum fullar innblásturs og viljum gjarnan taka nemendurna, og sköpunargleði þeirra, okkur til fyrirmyndar.” segir Katrín Hulda.

Árskóli
Grunnskóli Bolungarvíkur
Nesskóli

Hver eru næstu skref?

“Námsefnið sjálft verður gert aðgengilegt á netinu eins og samið var um. Það væri þó gaman að geta gefið það almennilega út, þá með myndskreytingum og fallegri framsetningu. Ætlunin er að sækja um styrk fyrir slíku.”

„Hvað varðar næsta skólaár þá er búið að opna fyrir skráningu skóla sem vilja taka þátt. Bæði elstu bekkir grunnskóla og framhaldsskólar geta tekið þátt. Hlutverk Matís er að vera þeim innan handar, en námsefnið er allt saman til og því ætti ekki að þurfa mikil afskipti þar til að MAKEathonum kæmi. Opnað hefur verið fyrir skráningu og lýkur henni 1. september. Áhugasamir fá stutta google-könnun sem þeir fylla út.”

Þeir sem vilja kynna sér verkefnið enn fremur eða nálgast kennsluefni er bent á heimasíðu verkefnisins: https://graenirfrumkvodlar.com/. Verkefnið heldur einnig úti instagram síðu með ýmsum fróðleik og myndum: https://www.instagram.com/gff_matis/.

Sérstakar þakkir til samstarfsaðila: Stefán Þór Eysteinsson hjá Matís, Gunnar Þórðarson hjá Matís, Ragnhildur Friðriksdóttir fyrrum starfsmaður Matís, Árskóli Sauðárkróki, Nesskóli Neskaupstað, Grunnskóli Bolungarvíkur, Djúpið Frumkvöðlasetur Bolungarvík (Gunnar Ólafsson), FabLab Ísafjörður, FabLab Neskaupstaður, FabLab Sauðárkrókur, N4 Sjónvarpsstöð, Cambridge University. Dögun rækjuvinnsla, FISK Seafood, ArcticFish og Eskja.

Skráning er hafin

Opnað hefur verið fyrir skráningu í Græna Frumkvöðla Framtíðar fyrir næsta skólaár. Verkefnið hentar elstu bekkjum grunnskóla og grunnáföngum framhaldsskóla. Fyrir frekari upplýsingar geta áhugasamir haft samband við verkefnastjóra verkefnisins, Justine Vanhalst í netfangið Justine@matis.is. Skráning fer fram með því að smella á hnappinn hér að neðan: