Með aukinni fólksfjölgun þarf að tryggja fæðuöryggi framtíðarinnar en jafnframt gæta að áhrifum á umhverfi og loftslag. Matur sem kominn er af eldi hefur eitt lægsta kolefnisspor dýraafurða og þá sérstaklega matur sem kemur af lægri stigum fæðukeðjunnar. Það eru til dæmis ostrur, kræklingar og sæeyru. Um þetta, og fleira er fjallað í nýju netnámskeiði sem UiT Norges arktiske universitet (The Arctic University of Norway) býður upp á. Námskeiðið er þverfaglegt og á meistarastigi.
Námskeiðið opnar 3. apríl, og er opið öllum.
Í námskeiðinu er farið yfir víðan völl tengt eldi á lægri stigum fæðukeðjunnar. Fjallað er um líf- og vistfræði helstu tegunda, umhverfisáhrif, sjálfbærni, hagfræði og fleira. Nemendur með ólíka þekkingu og reynslu ættu því allir að geta fundið eitthvað við sitt hæfi. Námskeiðið byggir á stuttum fyrirlestrum á formi myndbanda, verkefnum og lesefni. Ljúki nemendur námskeiðinu geta þeir fengið skírteini þess efnis frá UiT.
Námskeiðið var búið til sem hluti af AquaVitae verkefninu, en það er Evrópuverkefni, styrkt af Horizon 2020 (Grant Agreement No 818173) áætlun Evrópusambandsins, með það að markmiði að auka vægi eldis á lægri stigum. Matís er hluti af bæði verkefninu og þróunarteymi námskeiðsins.
Kynntu þér námskeiðið nánar, hér.
Fyrir frekari upplýsingar er hægt að hafa samband við Katrínu Huldu Gunnarsdóttur sérfræðing hjá Matís katrinh@matis.is.