Fréttir

Heilraðgreiningar á Listeríu og öðrum sjúkdómsvaldandi örverum í matvælum

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Tengiliður

Sæmundur Sveinsson

Fagstjóri

saemundurs@matis.is

Í nýjasta fréttabréfi sóttvarnarlæknis kemur fram að tíðni sýkinga af völdum Listeríu fari ört vaxandi í Evrópu. Merki eru um sömu þróun hér á landi þar sem fimm tilfelli greindust á fyrstu þremur mánuðum ársins. Listería getur valdið alvarlegum sýkingum í viðkvæmum hópum, s.s. barnshafandi konum, ungbörnum og eldri einstaklingum. Mikilvægur þáttur í baráttunni gegn Listeríu í matvælum eru svokallaðar heilraðgreiningar á erfðamengjum baktería (WGS – whole genome sequencing). Þessi aðferð hefur verið að ryðja sér til rúms undanfarinn áratug og Matís var brautryðjandi í innleiðingu hennar hér á landi. Þessari aðferð hefur verið beitt á Matís síðastliðin 10 ár, fyrst í rannsóknaskyni en síðar til að rekja uppruna sýkinga af völdum matarborinna sjúkdóma.

Matís hefur komið að smitrakningu í nokkrum alvarleglegum tilfellum af Listeríu sýkingum í samstarfi við Landspítalann, MAST og Sóttvarnarlækni. Matís rekur ennfremur tilvísunarrannsóknastofu í sjúkdómsvaldandi E. coli og Salmonella, sem geta borist í fólk í gegnum matvæli og valdið alvarlegum sýkingum. Matís framkvæmdi heilraðgreiningar í tengslum við hópsýkingu af völdum E. coli STEC árið 2019.

Rannsóknastofa Matís í örverumælingum er svokölluð tilvísunarrannsóknastofa (NRL) í Listeríu. Rekstur tilvísunarrannsóknastofa felur í sér ráðgjöf og leiðbeiningar um mæliaðferðir, þátttöku í þróun og sannprófun mæliaðferða, miðlun þekkingar og upplýsinga frá erlendum tilvísunarrannsóknastofum til rannsóknastofa hér á landi, vísindalegri og tæknilegri aðstoð við lögbær yfirvöld og viðhaldi faggildingar.

Matís rekur öfluga rannsóknastofu í örverufræði þar sem hægt er greina örverur í öllum gerðum matvæla- og umhverfissýna. Matís býður ennfremur upp á ráðgjöf til matvælaframleiðenda um hvernig er best að fyrirbyggja örverusmit við vinnslu á matvælum.