Fréttir

Ráðstefna um samlífi fólks og örvera í Þjóðminjasafninu

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Hvað er það sem sameinar skyr, súrdeigsmæður, bokashi-tunnur og þurrklósett? Hvaða áhrif hafa umhverfismál á þarmana í okkur?

Til þess að svara þessum spurningum þurfum við að móta nýtt sjónarhorn þvert á rannsóknarsvið og samþætta ólíkar rannsóknaraðferðir. Örveruheimurinn sem umlykur okkur, að innan og utan, bæði hýsir okkur og nærir. Þótt hann sé að mestu leyti hulinn mennskum augum, þá er hann lykillinn að framtíð mannkyns í síkvikum heimi.

Fimmtudaginn 11. og föstudaginn 12. apríl verður haldin ráðstefna í Þjóðminjasafni Íslands þar sem fjallað verður um örverur og menningu með fjölbreyttri þverfræðilegri nálgun.

Fyrirlesarar koma frá ólíkum þekkingarsviðum, eins og örverufræði, matvælafræði, þjóðfræði, mannfræði, næringarfræði, félagsfræði, heilsuhugvísindum, hönnun og sviðslistum; en eiga það sameiginlegt að leggja áherslu á mikilvægi samlífis fólks og örvera fyrir umhverfi, heilsu, félagsleg tengsl og menningu.

Á meðal mælenda eru þau Agnes Þóra Árnadóttir og Snorri Páll Ólason doktorsnemar hjá Matís sem munu fjalla um verkefni sín. Agnes mun fjalla um áhrif mataræðis mæðra á þarmaflóru ungra barna þeirra og Snorri um örveruflóruna í kæsingu hákarls.

Ráðstefnan er öllum opin og aðgangur frjáls. Hægt er að mæta á einstakar málstofur.

Dagskrá ráðstefnunnar.