Fréttir

Möguleikar fullnýtingar ræddir á ráðstefnu í Kóreu

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Í Febrúar síðastliðnum fékk Margrét Geirsdóttir, verkefnastjóri hjá Matís, spennandi boð frá KIMST (Korea Institute of Marine Science & Technology Promotion) og KIOST (Korea Institute of Ocean Science) um að ræða fullnýtingu á ráðstefnu í Seúl í Kóreu.  

Um þessar mundir er betri nýting hliðarafurða í fiskvinnslu Kóreumönnum hugleikin og mikill áhugi hefur verið á því að kynnast því sem vel hefur verið gert annarsstaðar í heiminum. Margréti var boðið til þess að flytja erindi um ýmis verkefni sem hún hefur unnið að hjá Matís og hafa snúið að fullnýtingu, þá einna helst á fiski. Alexandra Leeper frá Sjávarklasanum fékk einnig boð í sömu ferð og sagði hún frá því sem helst er að gerast á Íslandi í þessum efnum í dag og hvað hefur verið gert í gegnum árin til þess að komast á þann stað sem Ísland er á.   

Ráðstefnan bar yfirskriftina 2024 International Zero Waste Fisheries Forum og var sótt af um 200 manns og voru þar mörg frá kóreskum iðnaði, háskólum og rannsóknarstofnunum mætt til þess að fræðast og bera saman bækur sínar. 

Í ferðinni fengu íslensku gestirnir einnig að heimsækja glæsilegan fiskmarkað en það sem helst vakti athygli þeirra var að þar var mögulegt að kaupa og gæða sér á kæstri skötu sem var borin fram með chili sósu og þótti hið mesta lostæti.