Vinnustofa verkefnisins Örverur til auðgunar fiskeldisseyru var haldin fimmtudaginn 8. júní sl. í húsnæði Sjávarklasans. Verkefnið er unnið af Matís í samstarfi við, Sjávarklasann og Samherja. Megin tilgangur verkefnisins er að fá kannað hvort örverur sem þrífast í fiskeldisseyru séu nýtanlegar til þess að auðga næringarefnin sem eru í seyrunni svo hægt sé að nýta hana sem áburð.
Á vinnustofuna voru boðnir aðilar sem starfa á sviði fiskeldis hér á landi. Fjórir fyrirlestrar voru um verkefnið, skammstöfunina ÖAF, seyruna, efnasamsetningu hennar og áskoranir tengdar notkun hráefnanna seyru og annarra hliðarafurða frá fiskeldi. Að loknum fyrirlestrum var hópavinna þar sem þátttakendur vinnustofunnar unnu með viðfangsefnið og fóru yfir tækifærin sem og áskoranir tengdar framtíðarmöguleikum fiskeldisseyrunnar og öðrum hliðarafurðum frá fiskeldi.
Vel mætt var á vinnustofuna en þátttakendur töldu ríflega 20 manns og mynduðust góðar umræður hjá þátttakendum um viðfangsefnið sem þeir vinna með alla daga. Hluti verkefnisins „Örverur til auðgunar fiskeldisseyru“ er svo að vinna með niðurstöður úr vinnustofunni þ.e. hugmyndir og reynslu þátttakenda.
Eitt af niðurstöðum vinnustofunnar er að tækfæri seyrunna sem og annarra hliðarafurða frá fiskeldi eru fjölmörg s.s. nýting hráefnisins sem áburð og jarðvegsbætir fyrir landbúnað. En samhliða þeim tækifærum eru áskoranir tengdar regluverki og það að gera hráefnið fýsilegt til notkunar út frá hagkvæmni. Hagkvæmnin er tvíþætt þ.e. söfnun og meðhöndlun hráefnisins hjá fyrirtækjunum svo úr verði eftirsótt afurð.
Verkefnið er einn liður í stóru púsli til þess að efla hringrásarhagkerfið og er styrkt af Hringrásarsjóði.
Anna Berg Samúelsdóttir
Sérfræðingur Matís á sviði sjálfbærni og eldi.