Fréttir

Kornrækt á norðlægum slóðum

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Tengiliður

Ólafur Reykdal

Verkefnastjóri

olafur.reykdal@matis.is

Þann  29. nóvember  var haldin ráðstefna um kornrækt á Íslandi í höfuðstöðvum Landgræðslunnar í Gunnarsholti. Fram kom að mikilvægt er að auka kornrækt á norðlægum slóðum til að mæta þörfum mankynsins fyrir holl og næringarrík matvæli í framtíðinni.

Forstjóri Landgræðslunnar sagði frá því að á Íslandi væru stór svæði sem hægt væri að nýta til að auka ræktun á byggi. Íslenskir bændur hafa náð góðum tökum á byggræktinni og skila á hverju ári umtalsverðu magni af góðu byggi sem fyrst og fremst er notað sem fóður. Bygg hefur mjög sérstaka eiginleika og hollustugildi. Því er mikilvægt að auka virði byggframleiðslunnar með framleiðslu á hollum og góðum matvælum. Að þessu er unnið í verkefni sem styrkt er af Norðurslóðaáætluninni og Matís og Landbúnaðarháskólinn taka þátt í ásamt erlendum samstarfsaðilum. Bygg hefur mikið hollustugildi vegna þess að það er auðugt af trefjaefnum, andoxunarefnum, vítamínum og steinefnum. Trefjaefnin eru bæði vatnsleysanleg og óleysanleg. Meðal vatnsleysanlegu trefjaefnanna í byggi er betaglúkan en það er sérstaklega áhugavert vegna þess að það stuðlar að eðlilegu kólesteróli í blóði og dregur úr blóðsykursveiflum. Mikilvægt er að þekkja efnainnihald íslenska matvæla til að neytendur geti áttað sig á hollustu þeirra og valið matvæli sem falla að þörfum þeirra. Matís hefur yfir að ráða gagnagrunni (ÍSGEM) sem geymir upplýsingar um efnin í matnum. Því miður hefur vinna við uppfærslu þessa gagnagrunns legið niðri um nokkurra ára skeið vegna þess að ekki hefur fengist fé til vinnunnar. Matís vinnur nú að því að afla stuðnings til þess að hægt verði að hefja uppfærslu grunnsins og veita neytendum, atvinnulífi og heilbrigðisgeiranum upplýsingar.

IS