Fréttir

Leiðarvísir NordMar Plastic fyrir utanumhald hakkaþons

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

NordMar Plastic, samnorrænt verkefni sem leitt er af Matís, miðar að því að vekja athygli á og fræða almenning um plastmengun í umhverfinu auk þess að þróa og gefa út námsefni eða halda viðburði sem stuðla að aukinni nýsköpun í tengslum við viðfangsefnið. Nú hefur verið gefinn út leiðarvísir um það hvernig halda má svokallað hakkaþon (e. hackathon) eða hugmyndasamkeppni sem snýr að ákveðnu málefni.

Leiðarvísirinn er nytsamlegur ef halda á hakkaþon hugmyndasamkeppni um umhverfismál, ýmist á staðnum þar sem fólk hittist eins og venjan er í hefðbundnu árferði eða í netheimum. Í leiðarvísinum má finna minnislista, hugmyndir að uppsetningu dagskrár, umsagnir og heilræði um hvað skal gera og hvaða áskorunum skipuleggjendur geta staðið frammi fyrir þegar viðburður af þessu tagi er skipulagður. Leiðarvísirinn er byggður á skipulagningu og framkvæmd tveggja hakkaþon viðburða sem haldnir voru á Íslandi haustin 2019 og 2020.
Leiðarvísinn má nálgast á Pdf. formi hér.

Í september 2019 var haldið Plastaþon, hugmyndasamkeppni sem hafði það að markmiði að finna lausnir við vandamálum sem mannfólkið stendur frammi fyrir í tengslum við plastnotkun. Þátttakendur fengu þjálfun og fræðslu um málefnið og hittu fjölbreyttan hóp fólks sem kom saman til þess að leita skapandi lausna undir handleiðslu sérfræðinga. 50 einstaklingar skráðu sig en alls voru 34 sem kláruðu hakkaþonið. Þátttakendur mynduðu teymi og unnu saman að lausnum á vandanum sem hlýst af ofnotkun plasts. Hugmyndin sem bar sigur úr býtum fól í sér að setja upp sjálfsafgreiðslustöðvar fyrir mjólkurvörur og aðrar fljótandi vörur í matvörubúðum. Viðskiptavinir gætu þá sjálfir komið með endurnýtanlegar umbúðir og fyllt á eftir þörfum.

Svipaður viðburður var haldinn í ágúst á þessu ári, undir nafninu Spjaraþon. Vegna COVID-19 var viðburðurinn færður í netheima sem hafði í för með sér ýmsar áskoranir en leitast var við að hafa öll tæknileg atriði eins einföld og mögulegt var. Í þessu hakkaþoni komu þátttakendur saman til þess að fræðast um umhverfisvandann í tengslum við textíliðnaðinn og leita leiða til að sporna við textíl sóun. Sérfræðingar ræddu við þátttakendur um stöðuna á vandamálinu og stöðu hönnunarferlisins í iðnaðinum og úr samræðunum spruttu góðar hugmyndir um þróun lausna sem væru í senn áhrifaríkar, raunhæfar og nytsamlegar. 14 einstaklingar settu fram góðar hugmyndir en sigur lausnin bar yfirskriftina Spjarasafn. Spjarasafn er eins konar Airbnb fyrir föt sem gerir notendum kleift að leigja út og fá lánaða dýra munaðarvöru sem annars myndi að öllu jöfnu hanga ónotuð inni í fataskáp.