Fréttir

Norrænt verkefni um aukaefni úr plasti í sjó

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Fyrr á þessu ári var farið af stað með samnorrænt verkefni þar sem rannsökuð eru aukaefni úr plasti í sjó. Um er að ræða samstarfsverkefni Árósaháskóla í Danmörku, Nofima í Noregi og Matís á Íslandi. Verkefnið er styrkt af samnorrænum vinnuhópum um hafið, strandsvæði og efnafræði á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar og er áætlað að verkefninu ljúki í október árið 2021.

Bakgrunnur: Gert er ráð fyrir að allt að 8 milljón tonn af plastúrgangi berist árlega í hafið á heimsvísu og búist er við að losun aukist á næstu árum. Plast er að finna í ótal vörum en margvíslegum kemískum aukaefnum er bætt út í plastið svo það uppfylli ákveðin skilyrði eða hafi ákveðna eiginleika. Plastafurðir sem lenda í sjónum brotna smám saman niður í smærri agnir og uppbygging þeirra og efnasamsetning breytist vegna niðurbrotsins. Kemísk aukefni geta losnað úr plastinu og leitt til óæskilegra áhrifa á lífríki sjávar ef þau hafa skaðleg heilsufarsleg áhrif. Ekki er enn vitað hver áhrifin geta verið á mannfólk sem neytir sjávarfangs og þekkingu á því hvaða efnum er bætt út í plastið, hversu mikil losunin er í hafið og áhættu þessara þátta fyrir lífríki sjávar er ábótavant.

Um verkefnið: Í þessu norræna verkefni verða leifar kemískra aukaefna í tveimur vörum sem framleiddar eru úr tveimur algengum plasttegundum, annars vegar pólývínýlklóríð (PVC) og hins vegar pólýúretan (PUR) skoðaðar og mældar. Plastið verður mulið í míkrómetra litlar agnir eða svokallað örplast og sett, í vatnsgegndræpum pokum, í Samnangerfjörð nálægt Bergen í Noregi. Þar verður það geymt frá júní fram í október árið 2020. Eftir niðurbrot í vatninu verða tegundir og magn kemískra aukaefna í plastögnunum ákvörðuð með efnagreiningaraðferðum og borin saman við tegundir og magn í upprunalega plastinu. Þetta mun veita þekkingu á því hvaða kemísku aukaefni eru í plastinu og mögulegri tilhneigingu þeirra til að losna út í sjávarumhverfið. Byggt á mögulegum áhrifum kemísku aukaefnanna á lífríki sjávar og fólk verður gerður listi yfir þau aukaefni sem mælast og þeim svo raðað upp út frá þeirri áhættu sem þau hafa í för með sér.

Miðlun: Niðurstöðum verður miðlað í verkefnaskýrslu og í tengslaneti norræna samstarfshópsins NordMar plastic. Stefnt er að því að nýta niðurstöðurnar í kennsluefni og sem gögn til að byggja á í ýmiss konar ákvarðanatöku, í plastiðnaði, hjá samtökum plastiðnaðarins og dreifingaraðilum. Að auki verða niðurstöðurnar kynntar og ræddar við dönsku umhverfisstofnunina, í vísindagreinum og á heimasíðum samstarfsaðila og samfélagsmiðlum þeirra.

Verkefnastjóri verkefnisins er Patrik Fauser hjá Institutfor Miljøvidenskab í Árósaháskóla og Sophie Jensen er tengiliður hjá Matís. Frekari upplýsingar má nálgast hjá þeim.

Fréttina má einnig lesa á upprunalegu tungumáli hér.

IS