Þær Inga Kristín Guðlaugsdóttir og Elín Sigríður Harðardóttir eru vöruhönnuðir sem reka saman fyrirtækið Efnasmiðjan. Þær hafa undanfarin misseri unnið að og stýrt verkefni sem hefur yfirskriftina „Lúpína í nýju ljósi – trefjaefni framtíðar“ og gengur út á rannsóknir og tilraunir á alaskalúpínu.
Lúpínuna þekkja Íslendingar vel en hún var flutt inn til landsins árið 1945 og hefur síðan þá víða verið nýtt í jarðvegsuppgræðslu um land allt. Í upphafi verkefnisins voru eiginleikar og styrkleikar lúpínunnar sem hráefnis kannaðir. Markmiðið var að rannsaka eiginleika trefjaefnis sem unnið er úr ýmsum hlutum lúpínunnar frá mismunandi uppskerutímum með mismunandi aðferðum.
Tilgangur verkefnisins er að þróa umhverfisvænt trefjaefni, til dæmis í umbúðir og byggingarefni, úr alaskalúpínu á sjálfbæran hátt. Efnið er án allra utanaðkomandi bindi- eða aukaefna og getur auk þess brotnað hratt niður í náttúrunni. Áhersla er lögð á að nýta þennan efnivið sem þegar er til staðar í miklum mæli í íslenskri náttúru, án þess þó að útrýma honum.
Verkefnið er enn á rannsóknarstigi og er um þessar mundir verið að skoða hvernig hægt sé að búa til mismunandi trefjaefni með mismunandi aðferðum. Ýmsar tilraunir og mælingar, svo sem áferðarmælingar og fleira sem krefst aðstöðu, búnaðar og frekari vísindalegrar þekkingar eru í höndum Matís sem er samstarfsaðili í verkefninu og er Sophie Jensen tengiliður.
Niðurstöður úr rannsóknum og tilraunum sem hafa þegar verið framkvæmdar gefa til kynna að lúpínan hafi sérstaka eiginleika sem geri það að verkum að trefjar hennar bindist vel saman og myndi sterkt trefjaefni sem er til margs nytsamlegt.
Lúpínan er að mörgu leyti athyglisvert rannsóknarefni og hefur megin áhersla verið lögð á að skoða efnislega eiginleika hennar. Hún vakti þó einnig áhuga Ingu og Elínar vegan þess hve umdeild hún er í íslensku samfélagi. Lúpínan er í raun endalaus uppspretta líflegra umræðna og hafa flestir sterkar skoðanir á hennar málefnum; ýmist elskar fólk lúpínuna eða hatar hana.
Inga og Elín hlutu nýsköpunarverðlaun forseta Íslands árið 2018 fyrir verkefnið auk þess sem það hefur fengið umfjöllun víða, svo sem í hönnunarritum og á ráðstefnum. Hægt er að fylgjast með framvindu verkefnisins og fá frekari upplýsingar á heimasíðu þess; Lupineproject.com.