Fréttir

Markaðsaðstæður hafa áhrif á nýtingu og verðmætasköpun

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Svipull er sjávarafli og sviptingar sjást jafnframt á mörkuðum hvorttveggja hefur áhrif á ráðstöfun afla til vinnslu hjá verkendum. Eins og fram kom í erindi Sveins Margeirssonar á Sjávarútvegsráðstefnunni 24. október s.l. var nýting sjávarafla sem útfluttar vörur skv. hagtölum 48% árið 2015. 

Löngum hefur verið vitað að svipull er sjávarafli og sviptingar geta jafnframt einkennt aðstæður á mörkuðum og slíkt hefur áhrif á hvað verður um aflann í vinnslu hjá verkendum og að lokum hvernig afurðir sem unnar eru úr aflanum eru seldar. Eins og fram kom í erindi Sveins Margeirssonar á Sjávarútvegsráðstefnunni 24. október s.l. var nýting sjávarafla sem útfluttar vörur skv. hagtölum 48% árið 2015.

Útflutningsnýting, ef svo má segja, lækkaði um 12 prósentu stig frá 2014 til 2015. Árið 2015 fluttum við út 631,8 þúsund tonn af sjávarafurðum, 22,5 þúsund tonnum minna en árið 2014 þrátt fyrir að veiða 242 þúsund tonnum meira en 2014 eða 1.319,3 þúsund tonn í stað fyrir 1.076,8 þúsund tonn árið 2014. Í afla munar mestu um 240,9 þúsund tonn meira af loðnu sem landað var 2014 en 2015. Árið 2015 fluttum við 92 þúsund tonnum minna af frystum afurðum en um 65 þúsund tonnum meira af mjöli og lýsi. Þá fluttum við út nærri 300 tonnum minna af hertum sjávarafurðum 2015 en 2014. Hér er um allan afla að ræða, áður hefur verið bent á að nýting Íslendinga á þorski nam árið 2015 um 77%. Áhersla rannsókna og nýsköpunar hefur verið að auka þá nýtingu með verðmætamyndandi hætti.

Timalina-ensk_2015Nýting afla til útflutnings og verðmætasköpunar

Þessar tölur bera með sér nokkuð af þeim breytingum sem birst hafa í útflutningsskýrslum íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja að undanförnu. Má leiða líkum að breytingar á mörkuðum með sjávarafurðir hafi haft áhrif sem leitt hafi til þessarar niðurstöðu rétt eins og takmörkun á aðgengi að Rússlandsmarkaði. Lækkun olíuverðs hefur haft víðtækar afleiðingar þar á meðal minnkandi kaupmátt í Nígeríu sem verið hefur mikilvægur markaður fyrir hertar sjávarafurðir, þeirrar þróunar varð vart með óyggjandi hætti á árinu 2015. Sumarið 2015 bættu rússnesk stjórnvöld Íslandi á lista landa hvaðan óheimilt væri að flytja inn matvæli eins og ítrekað hefur verið tekið fram í almennri umræðu. Hvorttveggja er meðal utanaðkomandi áhrifaþátta á nýtingu sjávarfangs.

Eins mikilvæg og góð nýting afla er m.t.t. umhverfisálags af veiðum og vinnslu er það verðmætamyndunin sem knýr hjól efnahagslífsins. Útflutningsverðmæti sjávarafurða 2015 námu 264,5 milljörðum króna sem var um 20,6 milljörðum hærra en árið 2014. Árið 2015 fékkst 201 kr. á hvert aflað kg með útflutningi, um 26 minna en fyrir hvert aflað kg árið 2014. Hinsvegar var meðal verðmæti hvers útflutts kg 418 kr. árið 2015 um 46 kr. hærra en árið 2014.

Hagnýting vísindalegrar þekkingar skiptir máli fyrir framþróun atvinnugreina og samkeppnishæfni þeirra. Fáist að endingu meira fyrir hverja einingu, hvert kg sem úr sjó er dregið, þarf minna til að skapa sambærileg verðmæti sem minnkað getur umhverfisálag af veiðum og vinnslu. Með rannsóknum og nýsköpun hefur orði vart við framþróun í íslenskum sjávarútvegi á undanförnum árum, það kemur þó fleira til, þar á meðal vega markaðsaðstæður þungt og þolinmæði við uppbyggingu markaða er mikilsverð.

Nánari upplýsingar veitir Arnljótur Bjarki Bergsson sviðsstjóri Innleiðingar og áhrifa