Fréttir

Tvær nýjar greinar í Icelandic Agricultural Sciences

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Tvær nýjar greinar voru að koma út í hefti 29/2016 af vísindaritinu Icelandic Agricultural Sciences og hægt er að nálgast hana á slóðinni http://www.ias.is/landbunadur/wgsamvef.nsf/key2/bsinaawuad.html.

Fyrri greinin nefnist „Strongyloides stercoralis found in imported dogs, household dogs and kennel dogs in Iceland“ og er eftir Matthías Eydal and Karl Skírnisson.

Höfundar tóku saman yfirlit um tilfelli sem greinst hafa af sníkjuþráðorminum Strongyloides stercoralis í hundum á Íslandi en ormurinn hefur greinst í saursýnum úr 20 (0.6%) hundum sem fluttir voru til landsins um einangrunarstöðvar á árunum 1989-2016. Árið 2012 greindist ormurinn svo í mörgum hundum á íslenskri hundaræktunarstöð og ennfremur í nokkrum hvolpum sem keyptir hafa verið þar og í tveimur heimilishundum sem höfðu haft samgang við hunda frá hundaræktunarstöðinni.Ormalyfjagjafir og aðrar aðgerðir í hundaræktunarstöðinni virðast hafa borið umtalsverðan árangur en ormurinn hefur þó greinst í stökum saursýnum á undanförnum árum. Talið er að þráðormurinn hafi borist inn í hundaræktunarstöðina með innfluttum hundi, þrátt fyrir endurteknar ormalyfjagjafir í einangrunarstöð hefur smitast milli hunda í ræktunarstöðinni og borist þaðan út með seldum hundum.

Þessi grein sýnir að við þurfum stöðugt að vera á varðbergi gagnvart innfluttum sjúkdómum í dýr hér á landi og mikilværi þess að halda utan um gögn nýtast við að finna leiðir til að halda þessum sjúkdómi í skefjum.

Seinni greinin nefnist „Geothermal ecosystems as natural climate change experiments: The ForHot research site in Iceland as a case study“ eftir Bjarna D. Sigurðsson og 20 aðra höfunda.

Rannasóknin sem hér er fjallað um nýtir sér þær sérstöku aðstæður að jarðvegur á jarðhitasvæði hefur hlýnað og hægt að bera vistkerfi þar saman við jarðveg án hita. Verkefninu er ætlað að varpa ljósi á áhrif hlýnunar á norðlæg þurrlendisvistkerfi. Rannsóknirnar  fóru  fram  á  þremur  stöðum í  Ölfusi, í næsta nágrenni Hveragerðis: i) í graslendum sem hafa verið undir áhrifum jarðvegshlýnunar í langan tíma allavega í 50 ár, ii) í samskonar  graslendum sem byrjuðu fyrst að hitna vorið 2008 eftir Suðurlandsskjálftann og  iii) í gróðursettum 50 ára sitkagrenisskógi sem einnig byrjaði að hitna vorið  2008.  Reynt var að velja þannig að upphitunin yrði sem næst +1, +3, +5, +10 og +20 °C. Efnagreiningar sýndu engin merki þess að jarðhitavatn næði upp í jarðveg svæðanna og lokaniðurstaðan var að jarðhitasvæði ForHot verkefnisins framkölluðu aðstæður sambærilegar við ýmsar stýrðar jarðvegsupphitunartilraunir erlendis sem notaðar eru til að rannsaka áhrif hlýnunar á þurrlendisvistkerfi.

Þessi greinin segir frá stóru verkefni sem fjöldi manns og stofnana koma að og nú þegar hafa bæði MS og ein doktorsritgerð auk nokkurra greinar byrst um það og margar eiga örugglega eftir að koma á næstu árum. Áhugi manna á þessu verkefni nær langt út fyrir landsteinana sýnir þörf manna að kynna sér og rannsaka hver möguleg áhrif hlýrra loftslags kunni að hafa á náttúruna.