Fréttir

Mars er saltfiskmánuður

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Saltfiskur er gæðavara en ímynd saltfisks meðal Íslendinga hefur átt undir högg að sækja. Matís hefur í samstarfi við íslenska, norska og færeyska sérfræðinga í saltfiskvinnslu og gæðum, matreiðslu, matvælaframleiðslu, miðlun og ferðaiðnaði tileinkað marsmánuð 2024 saltfiski. Það er von aðstandenda verkefnisins að ímynd saltfisks verði snúið við því því það skiptir máli að saltfiskur sé hluti af matarmenningu okkar Íslendinga, við þekkjum hann og að við séum stolt af honum.

Verkefnið Saltfiskkræsingar var sett af stað árið 2022 og hafði það að markmiði að styrkja stöðu saltfisksins á innanlandsmarkaði. Vinnustofa sem haldin var á vegum vekefnisins leiddi glöggt í ljós að saltfiskurinn hefur endalausa möguleika þegar kemur að útfærslu rétta og sóknarfærin eru sannarlega til staðar. Hinsvegar þarf að breyta þeirri ímynd sem saltfiskur virðist hafa hér heima á Íslandi, til að mynda að saltfiskur sé brimsaltur eða eigi að vera það. Rétt útvatnaður saltfiskur á í raun ekki að vera mjög saltur, hann á bara að hafa dauft saltbragð. Einnig hefur orðið vart við að (létt-/nætur-) saltaður fiskur sé seldur sem saltfiskur, en þetta eru gjörólíkar afurðir.

Rétt útvatnaður saltfiskur hefur einkennandi verkunarbragð, sem minnir jafnvel á smjör og áferðin á fisknum er stinn. Framangreind vinnustofa var mjög vel heppnuð og á henni kom fram fjöldi hugmynda um hvernig hægt væri að styðja við þá ímynd að saltfiskur sé sannarlega sælkeravara.

Í framhaldinu var lögð áhersla á þróun tilbúinna rétta og uppskrifta sem byggja á hefðbundnum útvötnuðum saltfiski. Unnið var útfrá því sjónarmiði að auðvelda neytendum að útbúa saltfiskkræsingar án mikillar fyrirhafnar.

Nú í marsmánuði hefur verið blásið til saltfiskmánaðar í samstarfi við Krónuna, sem mun bjóða til sölu tilbúna rétti úr útvötnuðum saltfiski og útvatnaðan saltfisk frá Grími kokki sem er afrakstur þessarar vinnu.  Vörurnar eru í boði í Krónunni Lindum, Granda, Flatahrauni, Bíldshöfða, Skeifunni, Mosfellsbæ, Selfossi, Akureyri og í Vestmannaeyjum.

Fjölbreyttan fróðleik ásamt uppskriftum að girnilegan saltfiskréttum má finna á verkefnasíðu hér: Saltfiskkræsingar

IS