Fréttir

Matarsmiðjan

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Feel Iceland

Hjá Matís er starfrækt svokölluð matarsmiðja. Matarsmiðjan er í raun eldhús og vinnsluaðstaða með fjölbreyttum búnaði, tækjum og áhöldum til taks þannig að mögulegt er að stunda margvíslega matvælavinnslu í aðstöðunni. Vinnslan getur farið fram að því gefnu að hún hafi fengið tilskilin leyfi til rekstursins eða vottun.

Tveir þeirra frumkvöðla sem hófu starfsemi sína í Matarsmiðjunni eru Hrönn Margrét Magnúsdóttir og Kristín Ýr Pétursdóttir hjá Feel Iceland

Þær Hrönn og Kristín standa að baki fyrirtækinu Feel Iceland en þær sameinuðu krafta sína árið 2013 þegar þær stofnuðu fyrirtækið utan um framleiðslu og markaðssetningu á hreinum og áhrifaríkum kollagen snyrtivörum og fæðubótarefnum. Hrönn fékk hugmyndina þegar hún leigði rými í frumkvöðlasetri Sjávarklasans og sá hvað miklir mögulegar fælust í því að auka verðmæti íslenskra sjávarafurða en þær eru í sérflokki hvað varðar gæði og ferskleika. Þær höfðu áhuga á því að stuðla að betri nýtingu og búa til hágæða vörur sem myndu láta fólki líða betur og stuðluðu um leið að minni sóun.

Við fiskveiðar á Íslandi falla til ýmsar hliðarafurðir eins og fiskiroð sem er yfirleitt lítið nýtt þrátt fyrir að búa yfir ýmsum góðum eiginleikum. Feel Iceland kollagenið er unnið úr íslensku fiskiroði og unnið eftir kúnstarinnar reglum af einum besta kollagen framleiðanda heims sem staðsettur er í Kanada. Pökkun og vinnsla á efninu fer svo fram á Grenivík í Eyjafirði. Engum aukaefnum er bætt í vöruna en hún er þó unnin á þann hátt að ekkert fiskibragð situr eftir í henni. Kollagen er eitt helsta uppbyggingarprótein líkamans og hefur góð áhrif á húð, hár, neglur, bein og liði. Með aldrinum minnkar náttúrleg framleiðsla líkamans á kollageni og því hentar vel að taka það inn sem fæðubót.

Feel Iceland kollagenið er í duft formi þannig að með einföldum hætti má blanda því út í flest matvæli á borð við þeytinga, grauta, og alls kyns drykki en það hentar vel til daglegrar inntöku. Einnig eru hylki í boði fyrir þá sem það kjósa heldur, í bland við efni sem eru sérstaklega ætluð til þess að sporna við öldrun húðarinnar og minnka liðverki. Árið 2019 kom einnig á markað koffínbættur drykkur sem inniheldur kollagen frá Feel Iceland og kallast Collab. Hann er fáanlegur í ýmsum bragðtegundum í flestum verslunum og hefur notið mikilla vinsælda. Feel Iceland mun einnig bjóða upp á húðserum á næstu vikum sem inniheldur kollagen, ensím úr íslenskum þorski og hyaluronic sýru sem hefur gríðarlega góð áhrif á heilbrigði og ásýnd húðarinnar.

Nánari upplýsingar um Feel Iceland Collagen má meðal annars finna á vefsíðu fyrirtækisins.

IS