Fyrir stuttu undirrituðu Matís og Fisktækniskóli Suðurnesja samstarfssamning sem m.a. stuðlar að eflingu fagþekkingar, leikni og hæfni nemenda í námi í veiðum, vinnslu og fiskeldi.
Matís er stærsta rannsóknafyrirtæki landsins á sviði matvælarannsókna og matvælaöryggis.
Stefna Matís er að efla samkeppnishæfni íslenskra afurða og atvinnulífs, bæta lýðheilsu, tryggja matvælaöryggi og sjálfbæra nýtingu umhverfisins með rannsóknum, nýsköpun og þjónustu á sviði matvæla og líftækni.
Hjá Matís starfa margir af helstu sérfræðingum landsins í matvælatækni og líftækni; matvælafræðingar, efnafræðingar, líffræðingar, verkfræðingar og sjávarútvegsfræðingar. Einnig starfar fjöldi M.Sc. og Ph.D. nemenda við rannsóknartengt nám hjá Matís.
Fisktækniskóli Suðurnesja (FTS) er samstarfsvettvangur aðila á Suðurnesjum sem vinna að uppbyggingu þekkingar á framhaldsskólastigi á sviði fiskveiðaveiða, vinnslu sjávarafla og fiskeldis.
Fisktækniskólinn er einnig samstarfsvettvangur um undirbúning og framkvæmd endurmenntunar starfandi fólks í fiskeldi, veiðum og vinnslu sjávarafla. Fisktækniskólinn stendur að og hvetur til rannsókna og þróunarstarfs á sviði menntunar í fiskveiðaveiðum, vinnslu sjávarafla og fiskeldis.
Fisktækniskóli Suðurnesja er leiðandi í samstarfsneti skóla, fyrirtækja og símenntunarmiðstöðva á níu stöðum víðsvegar um land undir heitinu Fisktækniskóli Íslands (FTÍ).
Með samstarfi sínu hyggjast samningsaðilar:
- Efla fagþekkingu, leikni og hæfni nemenda sem leggja stund á skóla- og vinnustaðanám í veiðum, vinnslu og fiskeldi.
- Efla fagþekkingu, leikni og hæfni kennara og tilsjónarmanna nemenda í veiðum, vinnslu og fiskeldi.
- Efla áhuga ungs fólks á greinunum og stuðla þannig að nýliðun starfsmanna og aukinni virðingu fyrir störfum, fyrirtækjum og stofnunum.
- Auka skilning forsvarsmanna fyrirtækja í greinunum á nauðsyn og arðsemi menntunar almennra starfsmanna.
- Þróa kennsluhætti og starfsþjálfun á framhaldsskólastigi og í framhaldsfræðslu, bæði í skóla og í fyrirtækjum.
- Veita stjórnvöldum ráð um uppbyggingu og skipulag náms á framhaldsskólastigi og í framhaldsfræðslu.
- Sækja um styrki til innlendra og erlendra sjóða til að efla námsefnisgerð og þróun námsefnis
Nánari upplýsingar veita Margeir Gissurarson hjá Matís, margeir.gissurarson@matis.is, og Ólafur Jón Arnbjörnsson framkvæmdastjóri Fisktækniskólans, olijon@fss.is.