Fréttir

Morgunblaðið fjallar um kosti ofurkælingar

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Með svokallaðri ofurkælingu á fiskflökum og flakastykkjum er hægt að auka geymsluþol flakanna verulega, bæta gæði þeirra og fá hærra verð á erlendum fiskmörkuðum, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag, 11. maí. Þar er rætt við Sigurjón Arason, deildarstjóra hjá Matís, um kosti ofurkælingar. Matís hefur unnið að þróun slíkrar aðferðar með fiskvinnslu og árangurinn lætur ekki á sér standa, að því er fram kemur í Morgunblaðinu.

Sigurjón segir að með ofurkælingu sé farið með hitastig vel undir núll gráður, eins neðarlega og unnt er án þess að þeir ískristallar sem myndast í fiskholdinu fari að skemma út frá sér og rýra gæði flakanna. “Þannig förum við með hitastigið niður í mínus 1 til mínus 1,5 gráður,” segir Sigurjón.

Þá segir hann: “Í dag er fiskvinnsla og útflutningur á fiski ekkert annað en útflutningur á þekkingu. Að samtvinna svona þekkingu, eins og við gerum, er útflutningur á þekkingu. Að geta alltaf sagt til um það að fiskur á þessum árstíma, og af þessu eða hinu veiðisvæðinu, sé ekki nógu góður til að flytja út sem fersk flök, er auðvitað ekkert annað en þekking. Meðhöndlunin um borð í skipunum og vinnsluaðferðin í landi er ekkert annað en þekking. Því má segja að sjávarútvegurinn sé orðinn mjög tæknivæddur þekkingariðnaður í dag,” segir Sigurjón í samtali við Hjört Gíslason blaðamann Morgunblaðsins.