Fréttir

Nýjar rannsóknir sýna enn og aftur fram á öryggi íslensks fisks

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Í nýrri Matísskýrslu, sem nefnist Verðmæti og öryggi íslenskra sjávarafurða. Áhættusamsetning og áhætturöðun er fjallað um grunnvinnu að áhættumati fyrir þorsk, rækju, karfa, ýsu, grálúðu, síld, ufsa og kúfisk. Þessar tegundir voru kortlagðar m.t.t. hugsanlegrar áhættu varðandi neyslu þeirra og fékkst þannig fram áhættusamsetning þeirra og hálf-magnbundið áhættumat framkvæmt á þeim.

Við áhættumatið var notað reiknilíkan sem þróað hefur verið í Ástralíu og nefnist Risk Ranger. Við áhættumatið voru notuð gögn um neysluvenjur (skammtastærðir, tíðni o. fl.), og einnig tíðni og orsakir fæðuborinna sjúkdóma. Þannig var reiknuð út áhætta tengd neyslu þessara sjávarafurða, miðað við ákveðnar forsendur.

Áreiðanleiki áhættumats er háð þeim gögnum og upplýsingum sem notuð eru við framkvæmd þess. Samkvæmt fyrirliggjandi mæligögnum og gefnum forsendum raðast ofangreindar sjávarafurðir í lægsta áhættuflokk (stig <32) – sem þýðir lítil áhætta, miðað við heilbrigða einstaklinga.

Á alþjóðlegum matvælamörkuðum hafa íslenskar sjávarafurðir á sér gott orðspor hvað varðar heilnæmi og öryggi. Þar sem áhyggjur vegna öryggis matvæla hafa aukist víða um heim á undanförnum árum er hins vegar nauðsynlegt fyrir Íslendinga að viðhalda þessu góða orðspori með vönduðum rannsóknum.

Lesa skýrslu