Fréttir

Munu skordýr fæða heiminn?

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Mikið hefur verið rætt um þá staðreynd að fólksfjöldi á jörðinni muni vera allt að 9 milljarðar árið 2050. Til þess að fæða þennan aukna fjölda fólks er talið að núverandi matvælaframleiðsla þurfi að tvöfaldast sem er erfitt að sjá fyrir því þrýstingur á náttúruauðlindir er mikill fyrir.

Landsvæði eru af skornum skammti, ofveiði í höfum er algeng og loftslagsbreytingar ásamt tilheyrandi fylgikvillum eins og vatnsskorti geta haft alvarlegar afleiðingar fyrir matvælaframleiðslu í heiminum. Við þurfum að finna nýjar leiðir til næringaröflunar.

Skordýr hafa verið hluti af næringaruppsprettu mannkyns í gegnum aldirnar. Í dag er talið að skordýr séu hluti af fæðu tveggja milljarðar manna á meðan rík andúð er á neyslu þeirra, og jafnvel tilvist, í sumum þjóðfélögum. Þó að meirihlutinn af ætum skordýrum sé veiddur í þeirra kjörlendi hefur nýsköpun í ræktun á stórum skala verið að ryðja sér til rúms. Óvíst er þó hvernig margir vesturlandabúar munu bregðast við þessari þróun, en ljóst er að einhvers staðar verður að byrja, því skordýr er einnig hægt að nota sem uppspretta næringar fyrir ræktun á hefðbundnara próteini eins og fiski, en Matís hóf á árinu 2012 rannsóknir á Svörtu hermannaflugunni, Hermetia illucens (Sjá hér: http://www.matis.is/matis/frettir/nr/3738) í þeim tilgangi að þróa hágæða mjöl sem notað yrði í fóður fyrir fisk.

Matís var þáttakandi í alþjóðlegu ráðstefnunni Insects to feed the World, sem fram fór í Hollandi dagana 14.-17. maí 2014, og kynnti þar rannsóknir sínar á Svörtu hermannaflugunni. Eitt af markmiðum rannsóknarinnar, sem tengist verkefninu Úr grænum haga í fiskimaga, var að skoða hvaða áhrif mismunandi lífrænn úrgangur hefur á næringarinnihald lirfanna. Meðal annars voru prófaðir tómatar, epli og matarafgangar úr eldhúsi Matís. Niðurstöður leiddu í ljós að hægt að hafa mikil áhrif á næringarinnihald lirfanna með mismunandi æti ásamt því að lirfan er gríðarlega öflug í niðurbroti úrgangs og umbreytir hún ætinu í hágæða prótein og fitu.

Margt áhugavert var hægt að kynna sér á ráðstefnunni og kom mjög á óvart hversu mikill uppgangur er orðinn í þessum geira, helst í Evrópu og Bandaríkjunum. Evrópubúar eru þó þeim takmörkunum háðir að reglugerðir Evrópusambandsins banna framleiðslu á skordýrum sem fæðu eða fóður. Þessar reglur eru þó í endurskoðun. Í Bandaríkjunum er leyfilegt að framleiða skordýr með þessum hætti sé æti lirfanna talið hæft til manneldis. Þar hefur því skapast stór markaður fyrir t.d. grænmeti sem þarf að henda sökum pakkningagalla. Tvö stór fyrirtæki vestanhafs kynntu starfsemi sína á ráðstefnunni sem framleiða mikið magn af mjöli í fiskafóður. Framleiðslan er mjög umhverfisvæn miðað við t.d. svína- eða nautakjötsframleiðslu og krefst mun minna vatns og landsvæðis. Hluti af fituinnihaldi lirfanna er dreginn úr og seldur í snyrtiiðnaðinn og loks er hratið frá lirfunum selt sem hágæða áburður. Það verða því töluverðir möguleikar í ræktun skordýra í framtíðinni.

Birgir Örn Smárason á ráðstefnunni.

Nánari upplýsingar veitir Birgir Örn Smárason, doktorsnemandi hjá Matís.