Fréttir

Nordtic – lífhagkerfi norðurslóða

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Þann 25. júní verður haldin ráðstefna á Hótel Selfoss þar sem fjallað verður um Norræna lífhagkerfið (Nordic Bioeconomy) og lífhagkerfi norðurslóða (Arctic Bioeconomy).

Lífhagkerfið

Hugtakið lífhagkerfi (e. Bioeconomy) hefur verið notað til að ná yfir allar lífauðlindir, samspil þeirra og samhengi og áhrif þeirra á efnahagslega, umhverfislega og félagslega þætti. Rannsóknir á sviði lífhagkerfis ganga þannig þvert á atvinnugreinar og leitast við að hámarka ávinning auðlinda án þess að ganga á þær. Mikilvægur þáttur í starfsemi Matís er að efla og auka verðmætasköpun í lífhagkerfinu, meðal annars með verkefnum sem snúa að aukinni framleiðslu lífmassa og með því að hlúa að nýsköpun, vinna að bættri nýtingu og sjálfbærni í framleiðsluferlum og þar með hagfelldari afrakstri auðlinda. Starfsfólk Matís fagnar því norrænni áherslu á lífhagkerfið og vinnur náið með íslenskum stjórnvöldum að útfærslu þriggja ára formennskuverkefna á þessu sviði, en þau hófust á þessu ári þegar Ísland tók við formennsku í Norræna ráðherraráðinu.

Að þessu tilefni verður haldinn ráðstefna á Íslandi 25. júní þar sem fjallað verður um þessi mál frá margvíslegum sjónarhornum.

Á vef Gestamóttökunnar/Yourhost er hægt að skrá sig á ráðstefnuna.

Nýsköpun í lífhagkerfi Norðurlanda og norðurslóða

Innovation in the Nordic and Arctic Bioeconomy

 • 09:15 Coffee and registration
 • 10:00 Opening the conference | Sigurður Ingi Jóhannsson, Minister of Fisheries and Agriculture
 • 10:15 No standard = no market | Dr. dr. Andreas Hensel, President at BfR                 
 • 11:00 Product development in the Arctic Bioeconomy | Sigrún Elsa Smáradóttir, Research group  
             leader, Matís                        
 • 11:30 Industry success stories:
             Janus Vang, Director, iNOVA and Leif Sörensen, Chef. Faroe Islands
             Kim Lyberth, Inuili school, Greenland
             Ingunn Jónsdóttir, Regional Manager Matís and Valdís Magnúsdóttir, farmer and local food   
             producer Iceland   
 • 12:00 Lunch | Special taste of innovation
 • 13:30 Branding of Nordic food | Emil Bruun Blauert, CEO, Executive Advisor and Developer, WNEAT
 • 13:50 Microfeed: Turning wood into food | Clas Engström, Managing Director, SP Processum          
 • 14:10 Nutrition for the future – Possibilities of the Nordic areas? | Bryndís Eva Birgisdóttir, Associate
             professor, University of Iceland
 • 14:30 Coffee break             
 • 14:50 Food waste: Problem or growth opportunity? | Nils Kristian Afseth, Research Scientist, PhD,
             Nofima      
 • 15:10 Investing in algae – Ingredients for future food production | Olavur Gregersen, Managing
             Director, Syntesa Partners & Associates               
 • 15:30 Assessing and mitigating risk in the Nordic Bioeconomy | Guðmundur Halldórsson, Research
             Coordinator, Soil Conservation Service of Iceland
 • 15:45 Reflection panel | Nordic and Arctic bioeconomy in local & global perspective:
             Julian Roberts – COMSEC
             Prof. Dr. Eberhard Haunhorst , President  of Lower Saxony State Office for Consumer   
             Protection and Food Safety
             Alda Agnes Gylfadóttir, Managing director, Einhamar Seafood
             Steinar Bergseth, Coordinator MBTera
             Ásmundur Guðjónsson, Senior Adviser, Ministry of Fisheries Faroe Islands
 • 16:30 End of conference

Conference facilitator:

Guðrún Hafsteinsdóttir, Chairman of the Federation of Iceland Industries

Meira um lífhagkerfi norðurslóða

Eitt af þeim verkefnum sem Matís hefur haft forgöngu um er norræna verkefnið Arctic Bioeconomy en Sigrún Elsa Smáradóttir, fagstjóri á Viðskiptaþróunarsviði, er verkefnastjóri verkefnisins. Verkefnið er til tveggja ára og felur í sér kortlagningu á lífauðlindum á norðurslóðum, mati á afrakstri þeirra, og samanburði og greiningu milli svæða. Einkum er horft til Grænlands, Íslands og Færeyja en tæpt á lífauðlindum í norðurhluta Noregs, Svíþjóðar og Finnlands. „Í verkefninu er sérstaklega horft til matvælaframleiðslu með tilliti til fæðuöryggis auk þess sem nýsköpunarhæfni svæðanna og einstakra greina verður metin. Þetta er gert til þess að hægt sé að meta tækifæri og ógnanir og ráðast í kjölfarið í verkefni sem styrkja svæðin á þessu sviði,“ segir Sigrún Elsa, en áætlað er að verkefninu ljúki í nóvember 2014.

„Miklar lífauðlindir er að finna á norðurslóðum og eru þær mikilvægar fyrir efnahagslíf landanna, bæði beint og óbeint. Hér á Íslandi er sjávarútvegur ein helsta undirstöðuatvinnugreinin og gögn um stöðu sjávarútvegs í mjög góðu horfi, en gögn sem snúa að öðrum auðlindum, eins og til dæmis landnýtingu, eru síðri. Það er mikilvægt að ná saman yfirliti yfir auðlindir og afrakstur þeirra svo unnt sé að meta árangur og greina hvernig efla megi svæðin. Með því að auka verðmæti afurða, örva og styrkja lífhagkerfið og afkastagetu þess aukum við efnahagslegan árangur,“ segir Sigrún Elsa og bætir við að lífauðlindir þessa svæðis séu að breytast vegna hlýnunar jarðar. „Það er nauðsynlegt að fylgjast vel með þessum breytingum. Mikilvægt er að nýta þá möguleika sem hugsanlega opnast til matvælaframleiðslu á þessu svæði vegna breyttra lífsskilyrða og umhverfisáhrifa. Enda er staðreyndin því miður sú að meðan möguleikar á þessu sviði á norðurslóðum kunna að aukast, þá dragast þeir saman annars staðar á sama tíma og fólksfjölgun í heiminum heldur áfram“.

FP7, Horizon 2020, Industrial Leadership, Sicentific Excellence, Grand ChallangesSigrún Elsa Smáradóttir

Verkefninu er ætlað að styrkja löndin til virkrar þátttöku í alþjóðlegum samstarfsverkefnum, meðal annars á norrænum vettvangi. „Þegar kemur að rannsóknaáætlunum og stuðningi við nýsköpun, liggur fyrir að mikil áhersla verður lögð á lífhagkerfið, bæði í norrænu og evrópsku samhengi,“ segir Sigrún Elsa.

Þannig hefur norræna nefndin um landbúnaðar – og matvælarannsóknir (NKJ) unnið stefnumörkun um „Norræna lífhagkerfið“ (e. The Nordic Bioeconomy Initiative). Í þeirri stefnumörkun er sérstaklega horft til sjálfbærni náttúruauðlinda og nýtingar lífmassa með svipuðum hætti og aðrar þjóðir á evrópskum vettvangi hafa gert. Í nefndinni sitja þrír Íslendingar, þeir Torfi Jóhannesson, sérfræðingur hjá atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís og Sigurður Björnsson, sviðsstjóri hjá Rannís. Stefnumörkunin á fyrst og fremst að bæta og greiða fyrir norrænum samstarfsverkefnum sem snúa að rannsóknum á sviði lífhagkerfisins og stuðla að frekari stefnumótun á því sviði. Þannig er ætlunin að stuðla að sjálfbærri auðlindanýtingu í grunnframleiðslu og afleiddum greinum.

„Ætlunin er að efla samstarf úrvinnslugreina, eins og til dæmis matvælaframleiðslu eða fóður- og áburðarframleiðslu, við grunnatvinnugreinar, eins og sjávarútveg og landbúnað, og vinna að heildstæðum lausnum sem ganga þvert á atvinnugreinar og hámarka ávinning af nýtingu auðlindanna án þess að ganga á þær. Sjálfbær framleiðsla og nýting lífmassa stuðlar að efnahagslegri og félagslegri styrkingu svæða sem liggja að auðlindunum, aukinni matvælaframleiðslu og þar með auknu fæðuöryggi. Jafnframt er horft til vistvænnar framleiðslu á orkugjöfum úr lífmassa til að leysa jarðefnaeldsneyti af hólmi en þá er mikilvægt að leiðir verði fundnar til að slík framleiðsla verði ekki á kostnað matvælaframleiðslu. Mikil samkeppni um hráefni, annars vegar til matvælaframleiðslu og hins vegar til orkuframleiðslu, getur haft alvarlegar afleiðingar á matvælaverð og möguleika fólks í heiminum til að brauðfæða sig,“ segir Sigrún Elsa.

Íslenskt formennskuverkefni

Norrænu ríkin skiptast á um að fara með formennsku í Norræna ráðherraráðinu og leiða starfsemina eitt ár í senn. Í ár kemur það í hlut Íslendinga að gegna formennsku í ráðinu en samhliða því verður sett af stað þriggja ára formennskuáætlun á sviði lífhagkerfisins sem skila á beinum efnahagslegum ávinningi á Norðurlöndunum. Nú er að ljúka útfærslu formennskuverkefna á sviði lífhagkerfisins en Matís hefur verið virkur þáttakandi í þeirri útfærslu undir forystu Sveins Margeirssonar forstjóra Matís.

„Formennskuverkefnin munu kalla á aukið samstarf iðnaðarins og rannsókna- og menntastofnana í hagnýtum virðisaukandi verkefnum. Horft verður til þess hvernig efla megi þekkingarsköpun og framþróun í sjálfbærri auðlindanýtingu og framleiðslu á lífmassa á Norðurlöndunum og yfirfæra þá þekkingu og tæknilausnir sem fyrir er milli svæða,“ segir Sigrún Elsa.

Í tengslum við formennskuverkefnið verður mynduð pallborðsnefnd, Nordic Bioeconomy panel, sem verður ráðgefandi fyrir rannsóknasjóði Norðurlandanna þegar kemur að rannsóknaköllum á sviði lífhagkerfisins. Að auki verður hlutverk nefndarinnar að kynna stöðu Norðurlandanna út á við þegar kemur að lífhagkerfinu og þannig greiða aðgang landanna að alþjóðlegum rannsóknastyrkjum.

„Það að Ísland gegni burðarhlutverki í slíku samstarfi, hafi forgöngu um metnaðarfulla formennskuáætlun á sviði lífhagkerfisins og gegni leiðandi hlutverki í rannsóknum því tengdu á norðurslóðum, beinir sjónum annarra að landinu sem áhugaverðs samstarfsaðila í verkefnum sem snúa að lífhagkerfinu. Breitt fjölþjóðlegt samstarf á þessu sviði, bæði í rannsóknum og þróun, er mikilvægur grunnur að eflingu lífhagkerfisins og þar með efnahagslegra framfara á Íslandi,“ segir Sigrún Elsa að lokum.

Nánari upplýsingar veitir Sigrún Elsa. Einnig má sjá myndband Matís um stóru áskoranirnar á myndbandasíðu Matís.