Fréttir

BS í matvælarekstrarfræði

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Háskólinn á Bifröst, m.a. í samvinnu við Matís, ætlar að verða við kalli atvinnulífsins um land allt sem í vaxandi mæli hefur áhuga á að auka nýsköpun og framþróun á sviði matvælaframleiðslu. Háskólinn á Bifröst mun bjóða upp á nám í matvælarekstrarfræði frá og með haustinu 2014.

Lögð er áhersla á alla virðiskeðjuna frá frumframleiðslu að sölu til hins endanlega neytanda. Námið er 180 ECTS og lýkur með BS gráðu í viðskiptafræði með áherslu á matvælarekstur og hægt verður að stunda það í fjarnámi og staðnámi eða blöndu af þessu tvennu.

Að auki verður verður boðið uppá sérhæfingu í formi misserisverkefna (12 ECTS) og lokaritgerðar (14 ECTS). Námið verður í samvinnu Landbúnaðarháskóla Íslands og kennslan m.a. í samvinnu við Matís.

Grunnnám í viðskiptafræði við Háskólann á Bifröst er alhliða viðskiptanám sem ætlað er að búa nemendur undir ábyrgðar-, forystu- og stjórnunarstörf í atvinnulífi og samfélagi. Námið samanstendur af almennum viðskiptafræðigreinum eins og fjármálum, reikningshaldi, stjórnun og markaðsfræði. Nemendur geta dvalið eina önn í skiptinámi við erlendan samstarfsháskóla.

Sérhæfing kemur fram í eftirfarandi námskeiðum:

  • Næringafræði – 6 ECTS
  • Örverufræði matvæla – 6 ECTS
  • Matvælavinnsla – 6 ECTS
  • Matvælalöggjöf og gæðamál – 6 ECTS
  • Upplýsingatækni í matvælaiðnaði – 6 ECTS
  • Framleiðslutækni – 6 ECTS
  • Flutningatækni og vörustjórnun – 6 ECTS

Nánari upplýsingar veita Sigurður Ragnarsson, sviðsstjóri viðskiptafræðisviðs á Háskólanum á Birfröst og Sveinn Margeirsson, forstjóri Matís. Auk þess eru enn fleiri áhugaverðar upplýsingar á vef Háskólans á Bifröst, www.bifrost.is

Frétt m.a. byggð á frétt um námið sem birtist á vef Háskólans á Bifröst 6. júní sl.