Fréttir

Næsta námskeið: uppsetning og viðhald HACCP kerfa

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Næsta námskeið hjá Matís fer fram 11. og 12. október nk. og eru efnistökin að þessu sinni Uppsetning og viðhald HACCP kerfa. Námskeiðið fer fram í húsakynnum Matís að Vínlandsleið 12.

Markhópur

Starfsmenn matvælafyrirtækja og sér í lagi þeir sem koma að matvælaöryggi fyrirtækjanna

Markmið

Að veita þeim sem vinna á einhvern hátt að HACCP kerfum dýpri skilning á uppsetningu kerfisins og hvernig því skal viðhaldið. Auk þess efla þekkingu á hugsanlegum líf-, efna- og eðlisfræðilegum hættum sem kunna að leynast í umhverfi matvæla og hvaða áhrif þær geta haft á öryggi þeirra.

Efni námskeiðs

Farið verður yfir forkröfur HACCP og hvernig þær styðja við hættugreiningu matvælafyrirtækja. Þá verður rætt um helstu líf-, efna- og eðlisfræðilegar hættur sem áhrif geta haft á öryggi afurða og hvernig þær tengjast hættugreiningu. Ítarlega verður farið yfir uppsetningu HACCP og tekin fyrir hagnýt dæmi um einstaka þætti við uppsetningu kerfisins.

Afrakstur námskeiðs

Að námskeiði loknu eiga þátttakendur að hafa öðlast skilning á uppbyggingu HACCP kerfa og hvaða hættur er helst að finna í matvælum og umhverfi þeirra og hvernig hægt er að stýra þeim hættum.

Fyrirkomulag

Námskeiðið verður í formi fyrirlestra, og verklegra æfinga.

Námskeiðið verður haldið 11. og 12. október 2018
í húsakynnum Matís frá 9:00 til 16:00 báða dagana

Helstu þættir námskeiðs:

  1. Inngangur Fjallað um þróun og uppbyggingu HACCP kerfa.
  2. Góðir starfshættir (e. prerequisite program) Farið yfir helstu atriði góðra starfahátta og hvernig þeir tengjast HACCP. Rætt um hvernig góðir starfshættir hafa bein áhrif á hættugreiningu matvælafyrirtækja.
  3. Hættur í matvælum. Fjallað er um helstu hættur sem fyrirfinnast í hráefni og umhverfi matvæla sem og hættur er tengjast vinnslu og meðferð matvæla. Rætt um hvernig hægt er að stýra þessum hættum.
  4. Uppbygging HACCP. Farið yfir hvernig HACCP kerfi eru uppbyggð. Ítarlega farið yfir hvert þrep og hvernig kerfið er svo virkjað og viðhaldið.
  5. Verkleg þjálfun. Lögð er áhersla á að þátttakendur fái þjálfun í gerð HACCP kerfa. Á námskeiðinu er þátttakendum skipt upp í vinnuhópa eða ímynduð HACCP teymi og munu hóparnir vinna stutt verkefni í tengslum við það efni sem fjallað er um. Í lok námskeiðs eiga þátttakendur að hafa góðan skilning á uppsetningu HACCP kerfa og geta tekið virkan þátt í uppsetningu þeirra og jafnvel leitt þá vinnu.

Innifalið í skráningargjaldi eru öll námskeiðsgögn, léttar veitingar og hádegismatur báða dagana.

Hámarksfjöldi á námskeiðið er 15 og lágmarksþátttaka er 10 manns. Ef lágmarksþátttöku er ekki náð fellur námskeiðið niður og þeir sem hafa skráð sig fá endurgreitt. Ef námskeiðið fellur niður vegna ónógrar þátttöku sendir Matís tilkynningu þess efnis með að minnsta kosti 48 klst. fyrirvara. Sömuleiðis þarf að tilkynna forföll með minnst 48 klst. fyrirvara til að fá skráningargjald að fullu endurgreitt. 

Flestir fræðslu- og endurmenntunarsjóðir stéttarfélaga styrkja þátttöku í námskeiðum sem þessum. Kynntu þér málið hjá þínu stéttarfélagi.