Fréttir

Ný Matísskýrsla: Nýtt matskerfi fyrir kindakjöt hefur reynst vel

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Árið 1998 var tekið upp á Íslandi nýtt kjötmat fyrir kindakjöt samkvæmt sk. EUROP-kerfi, en í því eru skrokkar flokkaðir eftir fitu og holdfyllingu mun nákvæmar en áður tíðkaðist. Í sláturtíðinni 2003 0g 2004 var gerð úttekt á virkni EUROP-kerfisins hér á landi og nú er komin út skýrsla á Matís með niðurstöðum þeirrar könnunar.

Skýrslan, sem nefnist Úttekt á kindakjötsmati og er eftir Ásbjörn Jónsson og Óla Þór Hilmarsson, er lokaskýrsla fyrir árin 2003 og 2004 og í henni er fjallað um niðurstöður varðandi nýtingu skrokka og einstakra stykkja, ásamt mælingum á þyngd og stærð á öllum helstu stykkjum skrokksins eftir matsflokkum EUROP-kerfisins. Árið 2004 kom út á MATRA framvinduskýrslu undir sama heiti og eftir sömu höfunda, en verkefnið var styrkt af Framleiðnisjóð og Framkvæmdarnefnd búvörusamninga

Markmið verkefnisins var m.a. að koma á fót gagnabanka, sem hefði að geyma upplýsingar um samsetningu, nýtingu, notagildi og næringargildi dilkakjöts eftir mismunandi matsflokkum EUROP kerfisins, en slíkar upplýsingar gætu auðveldað verðútreikninga á öllum stigum vinnsluferils dilkakjöts.

Ískýrslunni kemur m.a. fram að mikil þróun hafi orðið í framleiðslu og úrvinnslu á lambakjöti á síðustu árum. Ræktunarstarf hefur miðað að því að auka vöðva og minnka fitu í skrokkum, og í úrvinnslu er fitusnyrting meiri en áður var. Með aukinni holdfyllingu fylgir meira kjöt og er því betri söluvara.

Með úttekt á magni kjöts, fitu og beina úr heilum skrokkum og einstaka hluta hans í hverjum matsflokki fyrir sig er hægt að koma upp öflugum upplýsinga- og gagnabanka sem auðveldar verðútreikninga á öllum stigum vinnsluferils dilkakjöts. Gætu þessar upplýsingar nýst við útflutning á dilkakjöti, því algengt er að erlendir kaupendur lambakjöts vilji vita hlutfall kjöts og fitu í einstökum stykkjum og í heilum skrokkum í mismunandi matsflokkum. 

Skýrsluhöfundar segja að niðurstöðurnar muni nýtast við fræðslu, markaðskynningu, vöruþróun og ekki síst munu bændur fá betri upplýsingar um afurðir sínar. Þá segja þeir aðhægt sé að nýta niðurstöður úr verkefninu sem grunnupplýsingar í kjötiðnaði, t.d. varðandi verðlagningu skrokka og við val á skrokkum fyrir mismunandi vinnsluleiðir.

Lesa skýrslu