Fréttir

Örplast finnst í Vatnajökli

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Umfjallanir um örplast hafa verið áberandi í fjölmiðlum og samfélagsumræðu undanfarin ár. Fyrr í mánuðinum birtist vísindagrein í tímaritinu Sustainability sem sýnir að örplast er að finna í Vatnajökli og vísindafólk leiðir að því líkur að örplastið megi einnig finna í öllum öðrum jöklum landsins.

Örplast er samheiti yfir örsmáar plastagnir af ýmsum toga. Agnirnar eru minni en 5 mm í þvermál og margar hverjar svo smáar að þær sjást ekki með berum augum. Plast getur verið framleitt sérstaklega í þessum smáu ögnum til þess að setja í ýmsar snyrtivörur til að ná fram hrjúfri áferð, til dæmis í kremi eða sápum. Öllu algengara er þó að örplast verði til þegar stærri plast einingar brotna niður í náttúrunni. Rannsóknir hafa sýnt að örplast finnst í öllum krókum og kimum heimsins. Í hafinu, í andrúmsloftinu, í heimsskauta ís og í líkömum manna og dýra.  

Örplast-agnir á fingri

Fjölmargar rannsóknir hafa verið gerðar á örplasti  og tilveru þess í heiminum undanfarin ár en í nýjasta tölublaði vísindatímaritsins Sustainability birtist grein eftir vísindafólk við Háskólann í Reykjavík, Háskólann í Gautaborg og Veðurstofu Íslands sem sýnir fram á að örplast má finna í snjóalögum Vatnajökuls.

Sýnin sem voru rannsökuð voru þriggja metra langir borkjarnar af miðjum jökli svo líklegt þykir að plastagnirnar hafi borist á jökulinn með vindi eða úrkomu. Örplastið var af ýmsum stærðum og gerðum og þessar niðurstöður gefa til kynna að ríkt tilefni er til þess að rannsaka örplast í heiminum, jafnvel á afskekktustu stöðum, og flutningsleiðir þess frekar.

Matís leiðir nú þegar samnorrænt verkefni sem ber heitið NordMar Plastic þar sem helstu rannsóknarefnin eru plast og áhrif þess á norðurslóðum. Í verkefninu hefur öflugur, þverfaglegur hópur sérfræðinga verið myndaður og markmiðið er að safna og skoða fyrirliggjandi gögn um aðferðir, niðurstöður rannsókna og eftirlit með plastnotkun og -mengun.

Markmiðið er jafnframt að skapa sterkt, alþjóðlegt tengslanet aðila sem tengjast málaflokknum til þess að ná fram samhæfingu, samvinnu samlegðaráhrifum.

NordMar Plastic leggur áherslu á að skoða aðstæður á norðurslóðum og leggja mat á hvort tilefni sé til að marka sérstaka stefnu á þessu svæði. Í verkefninu er einnig lögð áhersla á það að vekja athygli almennings á málefninu og búa til fræðsluefni og verkleg verkefni fyrir börn í grunnskólum um að draga úr plastnotkun og endurvinna plast.

Nánari upplýsingar um NordMar Plastic má finna á vefsíðu verkefnisins með því að smella hér.