Fréttir

Ráðstefna um vöktun líffræðilegs fjölbreytileika með umhverfis DNA

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Tengiliður

Davíð Gíslason

Verkefnastjóri

davidg@matis.is

Ráðstefnan MOBeDNA (monitoring biodiversity using eDNA) var haldin í sal Hafrannsóknastofnunar 2.-3. október sl.

Á ráðstefnunni voru fluttir fyrirlestrar um nýja aðferðafræði í verndunarlíffræði og rannsóknir á líffræðilegum fjölbreytileika fiska, smáþörunga og annara lífvera í sjó og fersku vatni. 

Á ráðstefnunni voru fluttir fyrirlestrar um nýja aðferðafræði í verndunarlíffræði og rannsóknir á líffræðilegum fjölbreytileika fiska, smáþörunga og annara lífvera í sjó og fersku vatni. Umhverfis DNA (environmental DNA, eDNA) er erfðaefni lífvera sem finnst í umhverfinu en flestar lífverur skilja eftir sig erfðaefni í umhverfinu sem kemur frá dauðum húðfrumum, slími fiska og saur. Með því að taka sjósýni og sía í gengnum fína síu má safna því DNA sem er að finna í sjónum. Erfðaefnið er síðan einangrað úr síunni, magnað upp og raðgreint. Raðgreind er tiltekin svæði á hvatberalitningi, en röðin er mjög breytileg milli tegunda. Röðin er borin saman við þekktar DNA raðir tegunda í gagnabanka til að ákvarða fjölda tegunda í sýninu. Með þessu er hægt að fá mat á líffræðilegum fjölbreytileika vistkerfis án þess að lífverurnar séu truflaðar eða drepnar.

Á ráðstefnunni kynntu 13 vísindamenn frá Íslandi, Noregi, Danmörku, Færeyjum og Kanada eDNA rannsóknir og voru haldin 16 erindi. Erindin fjölluðu öll um notkun þessarar nýju tækni við rannsóknir á líffræðilegum fjölbreytileika, stöðu þekkingar, samanburð við aðrar aðferðir, aðferðir við söfnun, sjálfvirknivæðingu mælinga og frekari tækifæri við notkun aðferðarinnar. Annar tilgangur ráðstefnunnar er að mynda hóp vísindamanna frá Norðurlöndunum, Evrópu og Kanada sem vinna við eDNA rannsóknir sem geta unnið saman í framtíðinni að framgangi slíkra rannsókna.

Ráðstefnan var opin og skráðu sig um 50 manns. Ráðstefnan ályktaði að tækni og aðferðafræði í eDNA rannsóknum séu langt á veg komnar. Það sem stendur helst í vegi fyrir framþróun aðferðarinnar er að viðmiðunar gagnabankar fyrir tegundir eru margir og upplýsingar í þeim ekki staðlaðar. Enn fremur eru upplýsingar sem þar er að finna oft á tíðum ekki sannreyndar. Ályktað var nauðsyn þess að koma á fót nýjum alþjóðlegum viðmiðunar gagnabanka eða styrkja núverand gagnasöfn svo upplýsingar um allar tegundir væru nákvæmari og altíð réttar.

Ráðstefnan var styrkt af undirhóp Norrænu Ráðherra nefndarinnar AG-FISK sem fjallar um fiskveiðar og fiskeldi. Davíð Gíslason sérfræðingur á Matís og Christophe Pampoulie erfðafræðingur á Hafrannsóknastofnun skipulögðu fundinn.