Fréttir

Rekjanleiki afurða í íslenskum sjávarútvegi

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

EPCIS staðall notaður við að sýna fram á rekjanleika afurða í íslenskum sjávarútvegi.

Fyrir stuttu fór fram tilraunakeyrsla í karfavinnslu HB Granda í Reykjavík þar sem notast var við EPCIS staðalinn við að sýna fram á rekjanleika afurða með þeim tilgangi að auka öryggi afurða og upplýsingaflæði innan virðiskeðjunnar. Tilraunakeyrslan gekk vel og munu helstu niðurstöður verða kynntar á ráðstefnum beggja vegna Atlandsála á næstu misserum.

Í verkefninu „eTrace“ er verið að skilgreina, þróa og innleiða rekjanleikakerfi sem byggir á EPCIS staðli frá EPCGlobal (www.epcglobalinc.org) sem byggir að hluta til á RFID (Radio Frequency IDentificaton) tækni. EPCIS staðallinn gerir það kleyft að skiptast á upplýsingum um EPC-merktar vörur, innan og á milli fyrirtækja. Í verkefni þessu eru upplýsingar um öryggi matvæla samþáttaðar við aðrar rekjanleikaupplýsingar í rauntíma. Megin tilgangur með svona kerfi er að tryggja fullkominn rekjanleika og auka um leið öryggi afurða og upplýsingastreymi.

Auk Matís eru meðal annars norsku fyrirtækin SINTEF og TraceTracker, háskólinn í Lundi, tæknifyrirtækið Roi4u og sænska fiskveiðieftirlitið þátttakendur í verkefninu, sem styrkt af SafeFoodEra áætluninni.

Tilraunin fór þannig fram að fiskiker HB Granda voru merkt með rafrænu auðkenni (RFID) sem sendir frá sér útvarpsbylgjur. Merkin samanstanda af rafrás (circuit) sem geymir og vinnur úr upplýsingum og loftneti til að senda og taka á móti upplýsingum. Hröð þróun hefur verið í gerð svona merkja á undanförnum árum og er nú svo komið að svona merki rúmast í litlum límmiða. Notast var við handlesara frá Nordic (ID PL3000), og var gögnum hlaðið þráðlaust með Wi-Fi tengingu þar sem veflægt EPCIS kerfi frá TraceTracker tók á móti gögnum.

Þessi rafrænu merki voru svo lesin af fiskikerum, vinnslukerum, frauðplastkössum og vörubrettum í gegnum ferlið til að fá rekjanleika afurða í gegnum vinnsluferlið. Þessi tilraun fór aðeins fram innan veggja HB Granda en ekkert hefði verið því til fyrirstöðu að fylgja vöru alla leið til neytenda. Með þessum reglulega aflestri næst tenging frá veiðum og vinnslu til endanlegrar vöru. Þetta opnar möguleika á stórbættri upplýsingagjöf milli aðila innan virðiskeðjunnar og til neytenda.

Trace_tracker_yfirlitsmynd
Mynd 1. Yfirlitsskjámynd frá karfavinnslunni hjá HB Granda úr hugbúnaði TraceTracker sem þróaður hefur verið í verkefninu.

Á mynd 1 hér að ofan sést einn veiðidagur, sem skilaði 38 kerum af ísuðum karfa. Þessi ker fara í gegnum vinnsluna í Reykjavík þar sem þau verða að 12 kerum af flökuðum karfa. Í þessu verkefni var 7 kerum fylgt í gegnum pökkunina þar sem þau enduðu í 329 frauðplastkössum sem staflað var á 5 bretti. Á bak við hvern lið á þessar mynd eru víðtækar upplýsingar um hvern einasta hlut með rekjanlegt auðkenni.

Þetta kerfi gerir það mögulegt að tengja aðrar upplýsingar við tilkomandi rekjanlegan hlut eða atburð í vinnslunni sjálfri. Þannig var til að mynda lesið af hitastigssíritum með sömu handlesurum og rafrænu auðkennin og þannig hægt að tengja hitastigsniðurstöður beint við ákveðin ker eða kassa í ferlinu, eða jafnvel heilar lotur af afurðum ef svo ber undir. Einnig gefst kostur á að tengja upplýsingar frá gæðakerfum, eftirlitsaðilum og vottunaraðilum beint við viðkomandi hóp auðkenna og þannig er hægt að sýna öðrum aðilum í virðiskeðjunni fram á mæliniðurstöður fyrir óæskileg efni, hitastigsferil, tengingu afurða við kvóta eða vottunarupplýsingar.

Með svona kerfi næst „fínni“ rekjanleiki en nú er fyrir hendi. Með núverandi rekjanleikakerfum er yfirleitt hægt að rekja vörur niður á skip og veiðidag, en svona kerfi gæti rekið vörur jafnvel niður á ákveðin veiðihol. Með auknum upplýsingum ætti að vera hægt að stjórna vinnslu afurða betur og ná fram enn betri nýtingu, einnig opnar svona kerfi möguleika á aukinni sjálfvirkni í framleiðslu og aukinni upplýsingagjöf til kaupenda.

Með stöðlun upplýsinga næst að samkeyra upplýsingar úr mismunandi kerfum, en eins og staðan er í dag eru yfirleitt mörg kerfi í notkun við veiðar, vinnslu og sölu afurða. Hugmyndin er að þau kerfi sem eru fyrir hendi sendi frá sér upplýsingar á stöðluðu formi til EPCIS kerfis, þannig stjórnar hver aðili fyrir sig í virðiskeðjunni hvaða upplýsingar hann vill sýna öðrum aðilum eins og sýnt er á mynd 2. Þannig opnast möguleikar fyrir að stórauka upplýsingagjöf milli aðila í virðiskeðjunni og til neytenda.

Trace_tracker_rekjanleiki
Mynd 2. Yfirlit fyrir ætlaða virkni EPCIS rekjanleikakerfis. Við flæði afurða í virðiskeðjunni verða til margþættar upplýsingar sem geta nýst við upplýsingagjöf til viðskiptavina en eru líka nauðsynlegar til að uppfylla reglugerðir. Upplýsingar á stöðluðu formi eru settar í EPCIS gagnagrunn af hverjum aðila fyrir sig í virðiskeðjunni, sá aðili stjórnar svo hvaða upplýsingum hann vill deila með öðrum aðilum í keðjunni, sem og neytendum.

Ljóst er að kröfur um rekjanleika afurða eru alltaf að aukast. Notkun rafrænna auðkenna og sjálfvirk gagnatekja er góð aðferð tryggja rekjanleika þeirra. Ætla má að íslensk fiskveiðifyrirtæki og vinnsluaðilar fari meira útí sjálfvirka gagnasöfnun um leið og fiskiker verða merkt með rafrænu auðkenni. Þá munu sjálfvirkar aflestrarstöðvar leysa af handlesara eins og notaðir voru í þessari tilraun.

Slík virkni eins og EPCIS staðallinn bíður uppá, þar sem upplýsingar frá mismunandi stöðum eru samþættar og tengdar við viðkomandi auðkenndan hlut eða vinnslu getur nýst matvælaframleiðendum, söluaðilum sem og neytendum á margvíslegan hátt. En eins og staðan er í dag tapast oft mikilvægar upplýsingar í virðiskeðjunni eða aðgengi að þeim er torveldað með ósamþættum kerfum og þar að leiðandi mjög tímafrekt að finna réttar upplýsingar fyrir viðkomandi auðkennisnúmer.

Gott rekjanleikakerfi veitir einnig möguleika að fræða neytendur enn frekar um vöru, sýna fram á sótspor hennar, fæðumílur auk atriða eins og hvernig varan var unnin og að hún sé veidd úr sjálfbærum fiskistofni. Aðrir þættir geta einnig verið mikilvægir neytendum, eins og hvort varan sé holl, hvort hún innihaldi þekkta ofnæmisvalda, eru umbúðirnar endurnýtanlegar, hvort starfsmönnum hafi verið umbunað með réttlátum hætti og hvort varan sé örugg og lögleg. Með því að geta svarað spurningum sem þessum á auðveldan hátt myndast traust á viðkomandi vörumerki.

Nýjungar eins og tvívíddar strikamerki ásamt nýlegum farsíma gera það mögulegt að neytendur geta fengið upplýsingar um vöru strax við búðarhilluna. En með því að taka mynd af tvívíðu strikamerki (eða hefðbundnu strikamerki) á afurðum detta þeir inná heimasíðu afurðar þar sem hægt er að fræða þá um viðkomandi þætti. Mikilvægt er að þær upplýsingar sem standa neytendum til boða séu tengdar rekjanleikakerfinu, til að sýna fram á mest viðeigandi upplýsingar fyrir tiltekna afurð fyrir sig.Auknar kröfur eftirlitsaðila, upplýstari neytendur og hröð farsímaþróun gerir það að verkum að ör þróun er um þessar mundir í öllu því sem snýr að rekjanleika afurða og framsetningu upplýsinga. Því er mikilvægt fyrir íslensk fyrirtæki að taka þátt í svona tilraunum til að sjá hvaða tæknimöguleikar eru handan við hornið.

Nánari upplýsingar veitir Valur Norðri Gunnlaugsson.