Fréttir

SEAFOODplus klasaverkefninu fer að ljúka – Matís með stórt hlutverk

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Fyrir stuttu var 5. opna ráðstefna í SEAFOODplus klasaverkefninu haldin í Kaupmannahöfn. SEAFOODplus er eitt af s.k. klasaverkefnum í 6. rannsókaáætlun ESB og var ýtt úr vör í byrjun árs 2004. Af því tilefni kom út vísindarit, “Improving seafood products for the consumer,” þar sem margir frá Matís lögðu til efni.

SEAFOODplus var eitt af s.k. klasaverkefnum í 6. rannsókaáætlun ESB og jafnframt eitt stærsta einstaka rannsóknarverkefni sem ESB hafði fjármagnað á þeim tíma til rannsókna á fiski og sjávarfangi (26 m ?). Meginmarkmið S-plus var að efla heilsufar Evrópska neytenda með því að hvetja til aukinnar fiskneyslu og minnka þannig áhættu á hjarta- og æðasjúkdómum.

Verkefnið skiptist í tvo meginhluta og var stærri hlutinn helgaður Rannsókna- og þróunarverkefnum (Research and Technology Development – RTD), sem skiptust í fimm meginflokka. Einn þessara flokka var tileinkaður neytendum (Seafood and consumer behaviour and well-being). Fyrrnefnt vísindarit er einmitt samantekt greina úr þessum málaflokki.

Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins (Rf – nú Matís), ásamt ýmsum helstu matvælarannsóknarstofnunum í Evrópu,  tók þátt í að skipuleggja verkefni á sviði vinnslu, gæða og öryggi sjávarfangs þar sem áhersla var lögð á að bæta heilsu og vellíðan evrópskra neytenda. Íslenskir aðilar tóku þátt í rúmlega þriðjungi rannsóknaverkefnanna og stjórnuðu tveimur þeirra.  Guðjón Þorkelsson sviðsstjóri hjá Matís stjórnar einu þeirra, Propehealth.

Hinn hluti SEAFOODplus  beindist að yfirfærslu þekkingar til iðnaðar og kynningu afraksturs rannsókna  til iðnaðarins (Industry, Training and Dissemination ITD).  Má geta að Sjöfn Sigurgísladóttir, forstjóri Matís, er samræmingaraðili (coordinator) 4. hluta ITD SEAFOODplus, sem ber yfirskriftina Creation of New Business Activities, auk þess sem hún situr í framkvæmdastjórn verkefnisins.

Eins og áður segir kom nýlega út veglegt vísindarit “Improving seafood products for the consumer,” bók upp á tæpl. 600 bls, sem inniheldur mikinn fjölda greina sem með einum eða öðrum hætti tengjast SEAFOODplus verkefninu.  Bókin er gefin út af Woodhead Publishing Limited í Cambridge í Englandi og skiptist í sex hluta.

Margir starfsmenn Matís eiga greinar í bókinni, enda tók Rf / Matís drjúgan þátt í þessu samevrópska rannsóknarverkefni, eins og áður kom fram. Nánari upplýsingar um bókina má finna hér.