Fréttir

Síauknar kröfur gerðar um sjálfbærni

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Síauknar kröfur eru um að seljendur sjávarafurða byggi veiðar á sjálfbærni, segir í grein Óla Kristjáns Ármannssonar í nýjasta Markaðnum, viðskiptablaði Fréttablaðsins. Þar er rætt við Svein Margeirsson, deildarstjóra hjá Matís, sem segir að sjálfbærni kunna að vera aðgöngumiða að dýrari verslunarkeðjum erlendis. Þetta skipti ekki síst máli fyrir sjávarútveg þegar mögulegur samdráttur í þorskveiðum standi fyrir dyrum.

Ráðstefna um sjálfbærni í sjávar­útvegi fer fram á Sauðár­króki þann 14. júní. Hún er hluti af vestnorrænu verkefni sem nefnist „Sustainable Food Information” og hefur það að markmiði að auðvelda fyrirtækjum í matvælaiðnaði, svo sem sjávarútvegs­fyrirtækjum, að sýna fram á sjálfbærni í veiðum, vinnslu og sölu. Matvælarannsóknir Íslands (Matís) annast skipulagningu ráðstefnunnar, segir í grein Markaðarsins.

Sjalfbaerni

“Þar á bæ segja menn sjálfbærni vera orðið einkar mikilvægt hugtak í sjávarútvegi í ljósi sívaxandi krafna seljenda, verslanakeðja og neytenda um að ekki sé gengið á auðlindir hafsins og að mengun við veiðar, vinnslu og flutning á sjávarafurðum sé haldið í lágmarki. Til þess að sýna fram á sjálfbærnina þarf hins vegar að vera hægt að rekja ferlið sem á sér stað í matvælaiðnaðinum,” segir í grein Markaðarins.

Íslendingar standa framarlega

Sveinn Margeirsson, deildarstjóri á sviði sem kallast ný tækni og markaðir hjá Matís ohf., segir margt gott hafa verið unnið í þeim efnum hér á landi. „Við stöndum í raun frábærlega í rekjanleika hér,” segir hann, en með því að hægt sé að rekja ferlið fást nákvæmar upplýsingar um vöruna. Seljendur sem búa yfir „gæðaafurð” eru sagðir geta aðgreint sig betur frá öðrum á markaði.”

Fiskborð

Þá segir Sveinn: „Þetta snýst í fyrsta lagi um að neytandinn geti vitað hvaðan varan kemur, en það er sá þáttur sem flestir þekkja, og í öðru lagi um að hægt sé að rekja nákvæmlega hvaða leið varan fór. Ef tekið er dæmi um lambakjöt lægi leiðin frá bónda til neytanda í gegnum slátrun, kjötvinnslu, dreifingu og verslun.” Sveinn segir Íslendinga almennt standa framarlega í matvælaiðnaði hvað rekjanleika varðar „og mjög framarlega í sjávarútvegi á alþjóðlega vísu”.