Fréttir

Suðurland er hjarta grænmetisframleiðslunnar

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Í árslok 2012 var tekin ákvörðun um að ráða sameiginlegan starfsmann með Háskólafélagi Suðurlands að matarsmiðju Matís á Flúðum.

Haraldur Hallgrímsson, sviðsstjóri Nýsköpunar og neytenda, segir þetta mjög mikilvægt skref í uppbyggingu matarsmiðjunnar og til marks um aukið gildi hennar í nýsköpun og þróun matvælavinnslu á Suðurlandi.

„Starfsmaður matarsmiðjunnar kemur til með að kortleggja og styðja uppbyggingu á matvælatengdu námi á svæðinu, safna upplýsingum um þarfir fyrirtækjanna og vinna með þeim, jafnframt því að annast þau verkefni sem snúa beint að matarsmiðjunni. Þetta rímar mjög vel við þá áherslu sem við höfum í matarsmiðjunum og ég met það svo að á Suðurlandi séu mjög mikil tækifæri fyrir Matís til þess að styðja framþróun í matvælavinnslu. Við erum á Flúðum í hjarta grænmetisframleiðslunnar á Íslandi og eitt af því sem við horfum til er að nýta reynslu sem við getum yfirfært úr sjávarútvegi yfir í þá grein, t.d. hvað varðar vinnsluaðferðir, kælingu, dreifingartækni og svo framvegis.

Ég hef trú á að grænmetisframleiðslan eigi eftir að vaxa á Suðurlandi á komandi árum og við sjáum líka möguleika í nýsköpun tengdri bæði landbúnaði og sjávarútvegi á svæðinu. Kornræktin er dæmi um þetta og má í því samhengi benda á framleiðslu hjá bændunum á Þorvaldseyri. Matarsmiðja Matís á Suðurlandi hefur því farið vel af stað á fyrsta starfsárinu og við erum að stíga skref til að efla hana enn frekar,“ segir Haraldur.

Nánari upplýsingar veitir Haraldur Hallgrímsson.