Fréttir

Þörungaþykkni með skilgreinda andoxunarvirkni

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Matís og fyrirtækið Grímur kokkur hafa unnið saman að verkefnum um auðgun sjávarrétta með lífefnum eins og þörungaþykkni með skilgreinda andoxunarvirkni, hýdrólysötum til að auka próteininnihald og fiskiolíum til að auka omega-3 fitusýrur fyrst í verkefni styrktu af AVS sjóðnum (R 041-10) frá 2010 til 2012.

Fyrir um ári hófst tveggja ára  norrænt verkefni styrkt af Nordic Innovation.  Í norræna verkefninu eru einnig  fyrirtæki sem framleiða íblöndunarefni í matvæli sprotafyrirtækið Marinox sem framleiðir þörungaduft, fyrirtækið Norður með próteinhydrolysöt og  norska fyrirtækið BioActiveFoods sem nýverið hefur sett á markað bragðlaust omega-3 duft. Í verkefninu eru einnig rannsóknafyrirtækið VTT í Finnlandi ásamt finnsku fyrirtæki sem framleiðir sjávarrétti.

Fyrirtækið Grímur kokkur sem er landsþekkt fyrir  vörur sínar úr sjávarfangi flutti rekstur sinn nýverið í  nýtt húsnæði  í Eyjum sem innréttað er algjörlega að þörfum fyrirtækisins. Jafnframt hefur Sigurður Gíslason matreiðslumaður tekið til starfa í fjölskyldufyrrtækinu og mun efla áframhaldandi vöruþróun og nýsköpun. Í norræna verkefninu er vöruþróun á auðguðum sjávarréttum að fara í fullan gang og tveir meistaranemendur við matvæla- og næringarfræðideild HÍ í samstarfi við Rannsóknastofu í Næringarfræði munu vinna sín lokaverkefni innan verkefnisins. Miklar vonir eru bundnar við afrakstur þessa verkefnis en þarna vinna saman nýsköpunar- og matvælafyrirtæki í tengslum við háskóla og þekkingarfyrirtæki.   

Frétt á Eyjunni.

Mynd á fundi tekin í gær Sigurður Gíslason og Grímur Gíslason frá Grími kokki, Emilía Martinsdóttir, Kolbrún Sveinsdóttir, Rósa Jónsdóttir og Valgerður Lilja  Jónsdóttir  meistaranemi.

Fundur í Matís

Nánari upplýsingar veitir Emilía Martinsdóttir hjá Matís.