Fréttir

Þróun á sameindaerfðafræðilegri aðferð til foreldragreininga í íslensku sauðfé

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Tengiliður

Sæmundur Sveinsson

Fagstjóri

saemundurs@matis.is

Bændablaðið birti í síðustu útgáfu sinni frétt um nýútgefna skýrslu Sæmundar Sveinssonar, fagstjóra erfðarannsókna hjá Matís sem fjallaði um foreldragreiningar í íslensku sauðfé.

Skýrslan sem bar yfirskriftina „Þróun á sameindaerfðafræðilegri aðferð til foreldragreininga í íslensku sauðfé“ kom út sem lokaafurð samnefnds verkefnis sem unnið var í samstarfi við Eyþór Einarsson sauðfjárræktarráðunaut hjá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins og styrkt af Framleiðnisjóði Landbúnaðarins. Markmið verkefnisins var að prófa alþjóðlega viðurkennd erfðamörk í þeim tilgangi að þróa tól til foreldragreininga í íslensku sauðfé. Það er mikilvægt fyrir ræktunarstarf í sauðfjárrækt að eiga kost á því að geta staðfest ætterni gripa, bæði m.t.t. þess að treysta ætternisgögn vegna kynbótastarfsins en ekki síður vegna rannsókna á erfðagöllum.

Í viðtalinu við Bændablaðið segir Sæmundur að bundnar séu vonir við að með þessu greiningartóli verði markvisst hægt að fækka alvarlegum erfðagöllum í sauðfé, eins til dæmis þeim sem veldur bógkreppu – sem er sjúkdómur sem veldur vansköpun í þroskun útlima á lömbum.

Umfjöllun Bændablaðsins um verkefnið má lesa í heild sinni hér: Foreldragreiningar í sauðfé gagnast helst í baráttunni gegn arfgengum sauðfjársjúkdómum.

Skýrslan sem vísað er í er aðgengileg á vef Matís hér: Þróun á sameindaerfðafræðilegri aðferð til foreldragreininga í íslensku sauðfé.