Dagana 22.-23. maí fór fram í Kaupmannahöfn upphafsfundur í evrópska rannsóknar- og nýsköpunarverkefninu BioProtect, sem leitt er af Matís og Hafrannsóknastofnun. Verkefnið mun standa yfir næstu 4 ár, þar sem saman koma 18 fyrirtæki og stofnanir víða að úr Evrópu með það að markmiði að þróa lausnir til að takast á við loftslagsbreytingar og ógnun manna við líffræðilegan fjölbreytileika sjávar. Verkefnið hefur hlotið 8 milljón evra stuðning frá Horizon Europe rammaáætlun Evrópu um rannsóknir og nýsköpun og er því á meðal stærstu verkefna sem íslenskir aðilar hafa stýrt innan rammaáætlana Evrópu.
Þennan upphafsfund sóttu um 40 lykil-fulltrúar þátttakenda, ásamt fulltrúum Evrópusambandsins og utanaðkomandi ráðgjöfum. Á fundinum var sérlega jákvætt andrúmsloft þar sem allir hlutaðeigandi eru spenntir fyrir komandi verkefnum, og nýttu meðal annars fundinn til að skipuleggja í þaula þá vinnu sem fram mun fara á komandi misserum.
Í aðalhlutverki á fundinum voru þau Sophie Jensen hjá Matís, sem stýrir verkefninu (e. coordinator), og Julian Burgos hjá Hafró, sem er vísindalegur leiðtogi verkefnisins (e. scientific manager), en saman mynda þau frábært stjórnunarteymi fyrir þetta áhugaverða og þarfa verkefni.