Fréttir

Upphafsfundur í loftslagsverkefninu Natalie

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Dagana 7.-10. nóvember sl. fór fram í Limoges í Frakklandi upphafsfundur Natalie verkefnisins sem Matís er aðili að. Megin áhersla verkefnisins er á að þróa náttúrutengdar lausnir NSB (e. Nature-based solutions) til að sporna við og/eða bregðast við áhrifum loftslagsbreytinga.

Natalie er fimm ára verkefni, sem unnið verður af 42 þátttakendum víðsvegar að úr Evrópu. Hlutverk Íslands í verkefninu er að sannreyna nýjar útfærlsur náttúrumiðaðra aðferða um mat á áhrifum loftlagsbreytinga á strandsvæði og lífríki þeirra. Verkefnið er umfangsmikið og flókið í allri framkvæmd og miðaði fundurinn að því að fá alla að borðinu, kynna sig og þá verkefnahluta sem hver hefur yfir að ráða.

Á fundinum var farið vel yfir stjórnunarhluta verkefnisins, þ.e. til hvers er ætlast af hverjum og einum aðila þess. Einnig fór fram kynning á öllum sjö verkhlutum verkefnisins (e. work package, WP) ásamt kynningu allra þeirra 42ja aðila sem eiga aðkomu í verkefninu, þ.e. þeirra aðild í verkefninu og þeirra bakgrunnur.

Fundardagarnir voru langir en árangursríkir eins og lagt var upp með. Þess utan náði fólk að spjalla saman og kynnast sem er gríðarlega mikilvægur liður í svona umsvifamiklum verkefnum sem ná yfir jafn langan tíma og lagt er upp með í Natalie eða fimm ár.

Að loknum fundi er ljóst að framundan eru spennandi tímar þar sem Matís mun taka þátt í þróun á mati nýrra lausna til að sporna við tapi á mikilvægum vistkerfum. Áskoranir vegna loftslagsbreytinga eru fjölmargar þ.m.t. ógn við vistkerfi sem standa undir matvælaframleiðslu sem ógna þar með matvælaöryggi okkar sem þjóðar vegna staðbundinna breytinga en jafnframt á heimsvísu.

Fylgjast má með framvindu verkefnisins á verkefnasíðu þess hér: Natalie.

Einnig á erlendri verkefnasíðu samstarfsaðilanna hér: Natalie.

This project has received funding from the European Union’s Horizon Europe program under grant agreement N° 101112859