Fréttir

Upphafsfundur í verkefninu Hringrásarhagkerfi kjötframleiðslu

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Í dag fór fram upphafsfundur í verkefninu Hringrásarhagkerfi kjötframleiðslu. Um er að ræða spennandi samstarfsverkefni Matís og Kjarnafæðis/Norðlenska sem snýst um nýtingu hliðarafurða úr kjötframleiðslu

Fundurinn tók að sjálfsögðu mið af gildandi sóttvarnarreglum og fór fram í gegnum fjarfundarbúnað eins og sjá má á meðfylgjandi mynd.

Markmið verkefnisins er að bæta framleiðslu og meðhöndlun hráefnis með því að greina sóknarfæri í nýtingu hliðarafurða úr slátrun. Út frá niðurstöðum greiningar sem þegar hefur átt sér stað á hliðarafurðum hjá Kjarnafæði/Norðlenska er lagt upp með að rannsaka tvo meginkosti í verkefninu; annars vegar að kanna möguleika á nýtingu og vinnslu dýrablóðs og hins vegar nýtingu almenns sláturúrgangs sem hráefni til gæludýrafóðurframleiðslu. Einnig verður framkvæmd lífsferilsgreining á núverandi ferlum og þeim nýju ferlum sem greindir verða. Nýnæmi verkefnisins snýr að notkun þekktra lausna til að bæta innlenda nýtingu og framleiðslu og þróa afurðir sem eru nýjar á Íslandi.

Hægt verður að fylgjast með framvindu verkefnisins á verkefnasíðu þess hér: Hringrásarhagkerfi kjötframleiðslu