Fréttir

Vinnufundur um laxeldi – skýrslan er komin út

Vinnufundur um laxeldi var haldin í húnæði Ölfus Cluster í Þorlákshöfn 27. Október 2021. Viðfangsefni fundarins voru málefni sem skipta laxeldi í sjó miklu máli og reynt að draga fram allar helstu og nýjustu lausnir á þeim sviðum.

Rætt var um fyrirbyggandi aðgerðir gegn laxalús, nýjungar í fóðurgerð þar sem nýting fóðurs er hámörkuð miðað við umhverfi fiskeldis í sjó, og seiðaeldi í stýrðum aðstæðum á landi; svo kölluð Recirculating Aquaculture Systems (RAS). Fræðimenn og sérfræðingar á þessum sviðum frá Íslandi, Færeyjum, Noregi, Danmörku og Finlandi héldu erindi um nýjustu strauma og stefnur í viðfangsefnum fundarins. Verkefnið var styrkt að AG Fisk, sem er norrænn styrktarsjóður, og stýrt af eftirfarandi vísindamönnum, sérfræðingum og eldismönnum frá öllum Norðurlöndunum.

  • Gunnar Thordarson, verkefnastjóri, Matís, Ísafirði, Íslandi
  • Björgolfur Hávardsson, NCE Seafood Innovation Cluster AS Noregi
  • Gunnvør á Norði and Jóhanna Lava Kötlum, Fiskaaling, Færeyjum
  • Kurt Buchmann, Department of Veterinary and Animal Sciences, University of Copenhagen, Frederiksberg, Danmörku
  • Henrik Henriksen, The Danish Aquaculture Organisation, Aarhus, Danmörku
  • Marko Koivuenva, Finnish Fish Farmers’ Association, Helsinki, Finlandi.

Um 60 manns sóttu fundinn sem hófst snemma morguns og stóð yfir fram eftir miðjum degi. Var mjög vel látið af erindum flytjenda sem upplýstu fundarmenn um allt það nýjasta sem er að gerast við þessi mikilvægu atriði í eldi í sjókvíum. Mikil ánægja var með flytjendur og þau erindi sem flutt voru, og mikið um spurningar og athugasemdir til þeirra.

 Vinnufundurinn var haldin í tengslum við Lagarlíf, sem er ráðstefna eldis og ræktunar á Íslandi, sem haldin var dagana 28 -29 október. Tæpt stóð að hægt væri að halda vinnufundinn og ráðstefnuna vegna sóttvarnaaðgerða, en stuttur gluggi myndaðist þó yfir þennan tíma til að halda þessar samkomur. Eins og gengur heltist fólk úr lestinni sem halda átti erindi vegna sóttkvíar, en tímalega tókst að fá aðra sérfræðinga inn til að fylla í skarðið.

Verkefnið var með tengingu inn á heimasíðu Matís og þar má nálgast öll erindi fundarins. Síðan er aðgengileg hér: Nordic Salmon.

Að fundi loknum var skrifuð skýrsla um erindi flytjenda og kynning á viðkomandi aðilum: Nordic Salmon – Skýrsla.

IS