Fréttir

Vísindaleg gögn forsenda markaðskynningar á íslenskum sjávarafurðum

Þjónustuflokkur:

Aðrir þjónustuflokkar

Íslenskt sjávarfang hefur lengi verið markaðssett þannig að áhersla hefur verið lögð á hreinleika og heilnæmi þess. Ekki nægir þó að fullyrða að vara sé heilnæm. Vönduð og vel skilgreind vísindaleg gögn um óæskileg efni í íslensku sjávarfangi eru lykilatriði til að sýna fram á stöðu íslenskra sjávarafurða m.t.t. öryggi og heilnæmis. Útflutningur íslenskra matvæla er einnig háður því að unnt sé að sýna fram á að öryggi þeirra, með hliðsjón af lögum, reglugerðum og kröfum markaða.

Í nýlegri skýrslu Matís eru teknar saman niðurstöður vöktunar á óæskilegum efnum í ætum hluta sjávarfangs 2019. Vöktunin hófst árið 2003 fyrir tilstuðlan þáverandi Sjávarútvegsráðuneytis, núverandi Atvinnuvega- og nýsköpunar-ráðneytisins, og sá Matís ohf. um að safna gögnum og útgáfu á skýrslum vegna þessarar kerfisbundnu vöktunar á tímabilinu 2003-2012. Undanfarin ár hefur skort fjármagn til að halda áfram vinnu við þetta vöktunarverkefni og því var gert hlé á þessari mikilvægu gagnasöfnun sem og útgáfu niðurstaðna á tímabilinu 2013-2016. Verkefnið hófst aftur í mars 2017 en vegna fjárskorts nær það nú eingöngu yfir vöktun á óæskilegum efnum í ætum hluta sjávarfangs úr auðlindinni sem ætlað er til manneldis, en ekki fiskimjöl og lýsi fyrir fóður. Af sömu ástæðu voru ekki gerðar efnagreiningar á PAH, PBDE og PFC efnum í þetta sinn.

Almennt voru niðurstöðurnar sem fengust 2019 í samræmi við fyrri niðurstöður frá árunum 2003 til 2012 sem og 2017 og 2018. Niðurstöðurnar sýndu að íslenskar sjávarafurðir innihalda óverulegt magn þrávirkra lífrænna efna s.s. díoxín, PCB og varnarefni.

Vísindaleg gögn af þessu tagi frá óháðum rannsóknaraðila um styrk óæskilegra efna í sjávarfangi eru mjög mikilvæg í markaðskynningum á sjávarafurðum fyrir væntanlega kaupendur og styrkir allt markaðstarf fyrir íslenskar sjávarafurðir. Gögnin nýtast ennfremur til að sýna fram á stöðu íslenskra sjávarafurða m.t.t. öryggi og heilnæmis sem og við áhættumat á matvælum.

Skýrsluna má nálgast hér.